Stólastúlkur í úrslit í Lengjubikarnum
Kvennalið Tindastóls tók á móti liði Völsungs í undanúrslitum C-deildar í Lengjubikarnum á sumardaginn fyrsta. Leikið var á gervigrasinu á Króknum í 16 stiga hita og hlýrri golu. Það er skemmst frá því að segja að Stólastúlkur fóru illa með gestina frá Húsavík og unnu öruggan 5-0 sigur og eru því komnar í úrslitaleikinn í C-deildinni.
Það var Murielle Tiernan sem kom liði Tindastóls yfir strax á 10. mínútu og á 30. mínútu bætti Krista Sól Nielsen við öðru marki, skömmu eftir að hún hafði fengið að kíkja á gula spjaldið hjá dómara leiksins. Staðan 2-0 í hálfleik. Murr bætti við öðru marki á 51. mínútu og Krista gerði annað mark sitt tveimur mínútum síðar. Það var síðan fyrirliðinn, Bryndís Rut Haraldsdóttir, sem gerði fimmta mark Tindastóls á 63, mínútu og þar við sat.
Í hinum undanúrslitaleiknum var það lið Þróttar Reykjavík sem sigraði Hamrana í Boganum á Akureyri 0-2. Tindastóll og Þróttur mætast því í úrslitaleik C-deildar næstkomandi sunnudag kl. 15:00 og fer leikurinn fram á gervigrasinu á Sauðárkróki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.