Stólastúlkur bitu frá sér gegn Íslandsmeisturunum
Lið Tindastóls tryggði sér sæti í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarsins með sigri gegn HK í fyrstu umferð og síðan ÍR. Það var því bæði jákvætt og neikvætt þegar ljóst varð að andstæðingur liðsins í 16 liða yrðu Íslandsmeistararnir í Val. Slæmt því reikna mátti með afar erfiðum leik en ánægjulegt að fá meistarana í heimsókn á Krókinn og heiður að mæta þeim. Það fór svo að Valskonur reyndust of stór biti að kyngja og þrátt fyrir góðan síðari hálfleik hjá heimastúlkum þá var sigur Vals aldrei í hættu. Lokatölur 1-4.
Það var heiðskýrt á Króknum í dag og sólin lék sér á himninum. Það væri synd að segja að það hafi verið hlýtt á vellinum en töluvert skaplegra veður en á heimaleikjum Stólastúlkna hingað til á tímabilinu. Lið Tindastóls virtist svolítið lítið í sér í byrjun leiks og Valskonur léku á alsoddi, létu boltann ganga vel og opnuðu vörn og miðju heimastúlkna allt of auðveldlega. Þær eru sannarlega góðar stúlkurnar af Hlíðarenda en þær fengu að vera óþarflega góðar. Það tók þær rétt rúmar þrjár mínútur að brjóta ísinn, boltinn hreyfður hratt og ýtt inn fyrir vörn Stólastúlkna þar sem Ásdís Karen Halldórsdóttir skoraði af öryggi. Átta mínútum síðar var staðan orðin 0-2 og nú var það Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir sem slapp í gegn. Vel studdar af síkátum syngjandi Grettismönnum í stúkunni þá náðu stelpurnar að herða á spilamennskunni þannig að vörnin fór að halda betur og færi og skot gestanna urðu viðráðanleg fyrir Amber í markinu. Staðan var 0-2 í hálfleik og varla hægt að segja að lið Tindastóls hafi farið með boltann yfir miðju fram að því.
Donni hefur væntanlega notað einhver spariorð í hálfleik því allt annað var að sjá til liðsins í síðari hálfleik. Nú var grimmdin komin í stelpurnar, þær voru ekki litlar í sér lengur, fóru að vinna návígin og koma boltanum upp að vítateig Vals. Allt í einu átti Hugrún skot rétt framhjá og eftir fyrirgjöf skallaði Murr boltann í þverslána. Lið Tindastóls var hreinlega betra liðið fyrsta stundarfjórðunginn. Valskonur nýttu sér hins vegar sóknarþrá heimaliðsins og þær refsuðu á 64. mínútu þegar þær snéru vörn í sókn og Ída Marín Hermannsdóttir gerði þriðja markið á 64. mínútu. Fjórum mínútum síðar bætti Cyera Hintzen við fjórða marki Vals þegar hún fékk allt of mikið pláss. Stólastúlkum til hróss þá lögðu þær ekki árar í bát og ætluðu sér greinilega að sækja mark. Það kom á síðustu sekúndu leiksins eftir hornspyrnu, boltinn féll inn á markteig þar sem Hugrún var fljót að átta sig og kom boltanum í markið við mikinn fögnuð áhorfenda og félaga hennar. Sárabótarmark sem virkaði eins og sigurmark!
Leikurinn var ágæt skemmtun og stemningin frábær en að sjálfsögðu var hún í boði Grettismanna sem tóku gleðina og fjörið úr körfunni með sér á grasið. Sigurinn sem fyrr segir sanngjarn en með smá heppni í upphafi síðari hálfleiks hefðum við kannski fengið smá spennu í leikinn – spennan kom reyndar en hún snérist fyrst og fremst um það hvort stelpurnar næðu að skora mark í dag.
Það hafðist en við náum ekki í Mjólkurbikarinn í sumar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.