Stólastúlkur á fljúgandi siglingu upp í Bestu deildina
Kvennalið Tindastóls sýndi fádæma öryggi í kvöld þegar þær heimsóttu lið Augnabliks á Kópavogsvöll. Það var ljóst fyrir umferðina að sigur í Kópavogi mundi tryggja Stólastúlkum sæti í Bestu deild kvenna að ári og það var hreinlega aldrei spurning hvort liðið tæki stigin í kvöld. Lið Tindastóls tók snemma völdin í leiknum og þær voru 0-4 yfir í hálfleik. Heldur hægðist á leiknum í síðari hálfleik en stelpurnar bættu við einu marki, sigruðu því 0-5 og eru í góðum gír að mæta toppliði FH á Króknum um næstu helgi – sigur tryggir Stólastúlkum efsta sætið í Lengjudeildinni.
Það var blautt en frekar stillt í Kópavoginum og boltinn þeyttist um á votum vellinum. Fyrir leik lá fyrir að FH og Fylkir gerðu markalaust jafntefli í Kaplakrika og því ljóst að ef Stólastúlkur næðu í öll stigin í leiknum gegn Auganbliki þá tryggðu þær sér sæti í Bestu deildinni og úrslitaleik um efsta sætið í Lengjudeildinni. Leikurinn fór rólega af stað en fljótlega varð ljóst að lið Tindastóls var sterkara og ákveðnara í sínum aðgerðum. Það voru föstu leikatriðin – hornspyrnur – sem gáfu vel til að byrja með. Fyrsta markið kom á 19. mínútu eftir horn frá Hönnuh sem sendi boltann beint á kollinn á Melissu Garcia sem skallaði boltann í fjærhornið. Þremur mínútum síðar fengu Stólastúlkur aðra hornspyrnu sína og enn sendi Hannah Cade boltann inn í, hann var hreinsaður til baka til hennar og Hannah skoraði með ágætu skoti sem fór af varnarmanni í markið, framhjá varnarlausri Herdísi Guðbjartsdóttur, Króksaranum í marki Augnabliks. Gestirnir voru ekki af baki dottnir og á 40. mínútu var það Murr sem gerði gott mark, fékk boltann fyrir utan teig, kom sér inn á teiginn og skoraði með góðu skoti. Fjórða markið gerði síðan Melissa tveimur mínútum síðar með skalla af stuttu færi eftir frábæran undirbúning Murr.
Heimastúlkur sýndu ágæta baráttu framan af síðari hálfleik á meðan Stólastúlkur, í góðri stöðu, tóku fótinn aðeins af bensíngjöfinni. Þær náðu þó aldrei að ógna marki Amber svo neinu næmi og fljótlega kviknaði á gestunum að nýju. Það fór ágætlega á því að Murr gerði fimmta og síðasta mark leiksins af harðfylgi á 64. mínútu. Liðin skiptu leikmönnum inn á ótt og títt síðasta hálftímann og m.a. fékk Magga að spreyta sig í markinu í stað Amber. Hún stóð fyrir sínu en Kópavogsstúlkur komust næst því að skora þegar þær settu boltann í þverslána á 90. mínútu.
Að sjálfsögðu var vel fagnað í leikslok enda frábært afrek að komast upp í Bestu deild að nýju. Lið Tindastóls var einbeitt, duglegt og gríðarsterkt og oft gekk boltinn bísna vel milli leikmanna. Það er varla hægt að segja að vörnin hafi lent í vandræðum og Amber þurfti ekki oft að grípa inn í leikinn. Á miðjunni voru Hrafnhildur og Hannah að stjórna umferðinni og eftir að Murr komst inn í leikinn var hún alltaf hættuleg. Eftir tiltölulega rólega byrjun á mótinu er hún komin með 14 mörk í sumar.
Það er því ljóst að næsta sumar verður lið Tindastóls á ný í deild þeirra bestu og hreint frábært að ná þangað strax eftir svekkjandi fall í fyrra. Liðið náði í sterka sigra í fyrri umferð Lengjudeildarinnar en oft nauma. Með tilkomu Melissu Garcia í byrjun ágúst hefur spilið batnað og sóknarleikurinn orðið mun skeinuhættari. Melissa er með fimm mörk í tíu leikjum og lið Tindastóls er nú á fljúgandi siglingu og með bullandi sjálfstraust. Hvað er betra í fótbolta?
Til hamingju Stólastúlkur með sætið í Bestu deild. Nú er bara að endurheimta bikarinn um næstu helgi – kannski fáum við að geyma hann lengur en síðast!?
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.