Stólastelpur á toppinn
Stelpurnar í meistaraflokki Tindastóls kvenna tylltu sér á topp 2. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu með sigri á Gróttu á heimavelli í gær. Stólar lentu tvisvar undir en eftir mikla eftirfylgni náðu okkar stelpur að jafna og komast yfir og unnu verðskuldaðan sigur. Strax á 11. mínútu kom markahrókurinn Taciana Da Silva Souza gestunum yfir en Guðrún Jenný Ágústsdóttir jafnharðan skömmu síðar eða á þeirri 14. Taciana endurtók leik sinn 8 mínútum síðar og kom Gróttu yfir á ný en það sætti Murielle Tiernan sig ekki við og jafnaði leikinn á ný og þannig var staðan í hálfleik, 2-2.
Rétt eftir að dómari leiksins, Árni Rúnar Magnússon, hafði blásið til síðari hálfleiks gerði Bryndís Rut Haraldsdóttir út um leikinn er hún kom boltanum í netið. Þrátt fyrir ágætar sóknir á báða bóga var ekki meira skorað og heimastúlkur hirtu því öll stigin þrjú og komu sér á toppinn með 15 stig, jafnmörg og Augnablik sem hefur lakara markahlutfall 22:8 en Tindastóll 24:9 eftir fimm sigra og tvö töp.
Grótta vermir þriðja sætið með 13 stig, Völsungur 12, Álftanes 11 og Fjarðab/Höttur/Leiknir 10 en Einherji og Hvíti riddarinn eru enn án stiga.
Næsti leikur Stóla verður næsta miðvikudag gegn Hvíta riddaranum á Tungubakkavelli í Mosfellsbæ og hefst klukkan 19:15. Allir sem tök hafa á ættu að drífa sig á staðinn og hvetja þessar mögnuðu stelpur til dáða.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.