Stólarnir yfirmeistarar í Vesturbænum
Lið KR og Tindastóls mættust í kvöld í DHL-höllinni í Vesturbæ Reykjavíkur í leik þar sem í ljós kom hverjir væru meistarar meistaranna. Það voru semsagt Íslandsmeistararnir sem tóku á móti bikarmeisturunum og það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda í kvöld – Stólarnir voru mun betri og sigruðu 72-103 og fengu afhentan bikar af því tilefni.
Bæði lið tóku smá tíma í að stilla miðið í byrjun leiks en eftir að Björn Kristjáns hafði komið KR yfir, 8-7, þá náðu Stólarnir yfirhöndinni og gerðu næstu níu stig leiksins. KR-ingum gekk afleitlega að spila boltanum og misstu hann ítrekað og þá voru Stólarnir að fara illa með Vesturbæingana í sóknarfráköstum. Það eru geysimörg vopn í vopnabúri Stólanna og heimamenn voru ekki að ná að stoppa þá í fyrri hálfleik. Staðan 15-24 þegar annar leikhluti hófst og þá setti Pétur tvo þrista og munurinn orðinn 15 stig. KR náði þó aðeins að krafsa sig inn í leikinn á meðan Friðrik Stefáns átti nokkuð skrautlega innkomu sem hann verður vonandi fljótur að hrista af sér. KR minnkaði muninn í tíu stig en stig frá Brynjari og Butaric komu muninum upp í heilbrigð 16 stig. Í hálfleik var staðan 34-50.
Lið KR kom betur stemmt til leiks í upphafi þriðja leikhluta og minnkaði muninn í ellefu stig, 41-52, en Urald King og Danero svöruðu fyrir Tindastól og skömmu síðar var munurinn orðinn átján stig, 45-63. Heimamenn náðu öðru góðu áhlaupi með Julian Boyd í stuði og nú minnkuðu þeir muninn í níu stig en þá komu þrjár glæsitroðslur frá King og Tindastólsmenn náðu völdum á ný. Pétur bætti við fimm stigum undir lok leikhlutans og staðan 58-74 þegar síðasti leikhlutinn hófst.
Pétur og Helgi Margeirs gerðu sitt hvorn þristinn í upphafi fjórða og KR-ingar lögðu árar í bát. Stólarnir léku við hvern sinn fingur og munurinn jókst jafnt og þétt. Síðustu mínúturnar voru það svo ungu mennirnir sem fengu að spreyta sig í báðum liðum enda úrslitin löngu ráðin. Finnbogi stal boltanum og lagði í körfu KR-inga til að koma Stólunum í 100 stigin og Ragnar Ágústs kláraði leikinn með nettum þristi.
Stólarnir eru því komnir með einn nettan bikar eftir fyrsta alvöruleik haustsins og voru vel að sigrinum komnir. KR-ingum var (nánast) vorkunn að verjast byrjunarliði Stólanna með sínar fjórar frábæru skyttur (Pétur, Brilla, Dino og Danero) og sívinnandi skopparabolta (King) í teignum! Og ekki skemmdu þeir fyrir sem komu af bekknum. Viðars-vörnin er engu lýk og Helgi Rafn virtist eiga ánægjulega stund í DHL-höllinni í kvöld. Þá komu þeir fínir inn Hannes Ingi, Helgi Margeirs og hinir.
Atkvæðamestur Tindastólsmanna var Urald King með 27 stig og átta fráköst, Pétur gerði 19 stig og átti sex stoðsendingar, Brynjar Þór var með 17 stig og fimm stoðsendingar, Danero 12 stig og sex fráköst og Dino var með 11 stig. Leikmenn Tindastóls voru með 131 punkt í framlag á meðan lið KR var með 73 punkta. Næst fá Stólarnir Þór Þorlákshöfn í heimsókn á Krókinn nk. fimmtudagskvöld þegar alvara Dominos-deildarinnar hefst.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.