Stólarnir tóku FSu í kennslustund
Tindastóll fékk í gærkvöldi botnlið FSu í heimsókn í Síkið. Gestirnir án sigurs í deildinni, en Stólarnir með 4 stig í 9. sæti. FSu byrjaði vel í leiknum og komst í 0 – 8.
Þá mættu Stólarnir til leiks og skoruðu 34 – 5 það sem eftir lifði 1. leikhluta. Má segja að leiknum hafi verið lokið þá og greinilegt að vængbrotið lið gestanna væri ekki að sækja stig á Krókinn í kvöld.
Á Tindastóll.is er eftirfarandi lýsing á leiknum og er það Jóhann Sigmarsson sem mundar pennann:
Stólarnir byrjuðu með Axel, Amani, Svavar, Helga Rafn og Michael inná í kvöld. Í hópinn voru mættir Helgi Freyr sem missti af síðasta leik og Friðrik Hreinsson sem hefur verið í fríi undanfarið. FSu var með þá Sæmund, Kjartan, Alex, Dominik og Jonathan inná í byrjun. Þeir mættu aðeins átta norður í kvöld og þar að auki búningalausir og léku því í Tindastólsbúningum. Stólarnir vígðu hinsvegar nýja búninga sína sem beðið hefur verið eftir síðan fyrir mót.
Eins og áður segir þá byrjuðu gestir vel og þeir Alex og Jonathan skoruðu tvær körfur hvor áður en Tindastólsdrengir ákváðu að byrja leikinn. Eftir fjórar mínútur var staðan 10 – 11, en þá hristu Stólarnir FSu af sér með því að skora 24 stig gegn tveimur. Staðan í lok fyrsta fjórðungs 34 – 13 og ljóst í hvað stefndi.
Gestirnir voru þó ekki alveg á því að gefast upp í öðrum leikhluta og náðu að hanga í Stólunum. Heimamenn skiptu nokkuð inná og náðu ekki alveg að stilla sig saman á köflum. Rikki kom inná og setti 7 stig í leikhlutanum, en Alex Zimnickas var öflugastur FSu manna og skoraði 9 stig í leikhlutanum og var kominn með 13 í hálfleik. Hjá Stólunum var Svavar einnig með 13 stig og Amani með 14, þar af eina glæsilega troðslu. Staðan í hálfleik 56 – 33.
Síðari hálfleikur byrjaði líkt og sá fyrri. FSu skoruðu fimm fyrstu stig leikhlutans, en síðan tóku Stólarnir sig til og skoruðu 15 – 2, þar af Svavar með tvo þrista. Var orðið klárt hvert sigurinn færi í kvöld, aðeins spurning hversu mikill yrði munurinn. Stólarnir hægðu ekkert á leik sínum og juku muninn jafnt og þétt út leikinn. Glæsilegt tilþrif sáust og nokkur galsi hljóp í leikmenn Tindastóls seinni hluta leiksins þegar sigurinn var orðinn öruggur. Gestirnir sprungu á limminu í síðari hálfleik, enda fáliðaðir og fór hann 47 – 19. Stólarnir lönduðu því sigri 103 – 52, eða með 51 stigs mun.
Öflugastir heimamanna voru þeir Svavar og Amani, þá var Helgi Rafn sterkur með 12 stig og jafn mörg fráköst. Hreinn, Rikki og Helgi Freyr komu sprækir inn af bekknum, Rikki með 12 stig og Helgi Freyr með 6 stig og 6 stoðsendingar á tæpum 14 mínútum hvor. Hjá gestunum var Zimnickas góður með 18 stig og 9 fráköst. Næstir honum komu Baker með 12 og Rumley með 9. Rumley er fljótur og lipur leikmaður, en hékk oft á tíðum of mikið á boltanum.
Stigaskor Tindastóls: Svavar 23, Amani 21, Helgi Rafn 12, Rikki 12, Hreinn 9, Michael 8, Helgi Freyr 6, Axel 5, Sigurður 3 og Pálmi og Einar Bjarni 2 stig hvor. Helgi Rafn var með 12 fráköst og Amani 10. Michael og Helgi Freyr voru með 6 stoðsendingar hvor.
Stigaskor FSu: Zimnickas 18, Baker 12, Rumley 9, Kjartan 6, Sæmundur 3, Wyatt og Peters 2 stig hvor. Zimnickas og Peters voru síðan með 9 fráköst hvor og Rumley 5 stoðsendingar.
Dómarar kvöldsins voru þeir nafnar Davíð Kr. Hreiðarsson og Davíð T. Tómasson og skiluðu þeir sínu ágætlega.
JS.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.