Stólarnir sýndu ágæta takta þrátt fyrir sigur Keflvíkinga

Tindastóll og Keflavík áttust við í gærkvöldi í fyrstu viðureign liðanna í úrslitakeppninni í körfuknattleik. Leikið var í Keflavík og áttu sennilega flestir von á öruggum sigri heimamanna en Stólarnir voru seigir og það var ekki fyrr en langt var liðið á leikinn sem Keflvíkingar sigldu framúr. Lokatölur urðu 94-75 en aðeins munaði þremur stigum á liðunum í hálfleik.

Tindastólsmenn byrjuðu leikinn vel ot spiluðu af skynsemi, reyndu að halda hraðanum niðri og sjá til þess að Keflvíkingar næðu ekki einhverjum flugeldasýningum. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 25-22. Visockis meiddist í byrjun annars leikhluta sem var auðvitað hið versta mál og bætti ekki úr skák að Svavar var að spila veikur og varla hálfur maður fyrir vikið. Stólarnir létu þó ekki deigan síga og héldu vel í við Keflvíkinga og þegar flautað var til leikhlés var staðan 46-43.

Keflvíkingar náðu 9 stiga forskoti í upphafi þriðja leikhluta en Visockis kom aftur inná hjá Stólunum um miðjan leikhlutann og náði að binda vörnina saman. Isom var að setja niður fínar körfur og var að venju magnaður. Að loknum þriðja leikhluta var átta stiga munur á liðunum, 74-66, og í byrjun fjórða leikhluta náðu heimamenn að auka muninn og var eins og Tindastólsmenn vantaði trúna á að þeir gætu klárað leikinn. Stóru skotin í fjórða leikhluta rötuðu ekki í körfu Keflvíkinga og því fór svo að lokum að Keflvíkingar höfðu 19 stiga sigur, 94-75.

Kalli Jóns, þjálfari Tindastóls, var ánægður með leik Tindastóls að flestu leyti í fyrri hálfleik en liðið átti fína spretti í vörninni í síðasta leikhlutanum en náðu ekki láta það skipta máli því skotin fóru ekki niður hinum megin.

„Það sem skipti sköpum í gær var að okkur skorti trúna á að vinna þennan leik. Við lékum á áætlun í fyrri hálfleik, vissum að þeir myndu sækja grimmt að okkur í upphafi seinni hálfleiks og stóðumst það svona þokkalega, alla vega vorum við inni í leiknum að honum loknum. Þegar við hins vegar þurftum á stóru körfunum að halda og setja niður opin skot, vantaði sjálfstraustið í skotin og þau duttu ekki. Það er eitthvað sem við verðum að laga fyrir næsta leik. Við þurfum aðeins að vinna í tæknihliðinni, en að stærstum hluta verðum við að öðlast þá trú að við getum unnið þá. Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að fylla Síkið á sunnudaginn því góð stemning og hvatning úr stúkunni getur sannarlega hjálpað okkur að öðlast þessa trú sem vantar“.

Sem fyrr segir meiddist Visockis í leiknum og er um hnémeiðsli að ræða. Það ætti að koma í ljós í dag hversu alvarleg meiðslin eru.

Stig Tindastóls: Isom 27, Visockis 14, Helgi Viggós 10,  Rikki 9, Axel 6, Helgi Margeirs 4, Svavar 3 og Sigmar 2.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir