Stólarnir stigu krappan dans við Valsmenn
Lið Tindastóls og Vals mættust í 13. umferð Dominos-deildarinnar í körfubolta í Síkinu í gærkvöldi. Stólarnir mættu laskaðir til leiks því í liðið vantaði þá Pétur Birgis og Urald King sem báðir glíma við meiðsli en á móti kom að Valsmenn voru búnir að skipta út Könum. Leikurinn reyndist æsispennandi en það voru Valsarar sem höfðu yfirhöndina mest allan leikinn og voru í raun dæmalausir klaufar að ná ekki sigri. Danero jafnaði leikinn með ruglþristi þremur sekúndum fyrir leikslok og í framlengingunni reyndust Stólarnnir reynslumeiri og nældu í dýrmætan sigur. Lokatölur 97-94.
Það varð fljótt ljóst að Stólarnir söknuðu Péturs og Uralds en sérstaklega var á brattann að sækja undir körfunum þar sem Raggi Natt kom öllum sínum 218 sentimetrum kyrfilega fyrir. Með sér hafði hann Alex Simeonov sem sömuleiðis er á þriðja metrann og þetta varð til þess að Valsarar höfðu yfirburði í fráköstum í leiknum og Stólunum gekk brösuglega að sækja að körfu gestanna. Valsmenn spiluðu líka góða vörn á helstu skyttur Stólanna sem áttu fyrir vikið erfitt uppdráttar utan 3ja stiga línunnar en leikmenn Vals voru að hitta vel í fyrri hálfleik. Niðurstaðan var því sú að Valur lék prýðilegan körfubolta framan af leik og voru níu stigum yfir eftir fyrsta leikhluta 16-25.
Þar sem Valsmenn höfðu einbeitt sér að því að loka á Brynjar, Urald og Dino í sóknarleik Tindastóls var ljóst að aðrir leikmenn urðu að ógna körfu Valsara. Nú steig Friðrik Þór upp og gerði átta stig í röð en gestirnir svöruðu jafnharðan og munurinn á liðunum var yfirleitt 5-9 stig. Þristar frá Finnboga og Hannesi (2) héldu Stólunum inni í leiknum en staðan í hálfleik var 41-49.
Brynjar hóf síðari hálfleikinn með þristi, 44-49, og Tindastólsmenn þéttu nú vörnina. Smám saman nálguðust þeir Val og Danero jafnaði leikinn 55-55 með þristi þegar þriðji leikhluti var hálfnaður. Eftir smá kafla þar sem hvorki gekk né rak hjá liðunum setti Brynjar niður þrist og nú héldu stuðningsmenn Stólanna að strákarnir væru komnir á beinu brautina. Svo var nú ekki að þessu sinni því Valsarar náðu aftur yfirhöndinni en Dino Butorac steig upp fyrir Stólana og setti þrjá laglega þrista á síðustu tveimur mínútum leikhlutans og sá til þess að aðeins munaði einu stigi fyrir lokafjórðunginn. Staðan 67-68.
Brilli jafnaði leikinn 70-70 með þristi snemma í fjórða leikhluta en í kjölfarið datt botninn úr leik Tindastóls, óskynsemi ríkti í sókninni og lítið gekk að stöðva sókn Valsmanna sem gerðu nú ellefu stig í röð og komust í 70-81. Nú var farið að stríkka á taugum stuðningsmanna Tindastóls. Þegar fjórar og hálf mínúta lifði leiks kom líflínan því Valsmenn ákváðu að trufla ekki Danero Thomas í 3ja stiga skoti og þetta kveikti í Stólunum og tveir þristar frá Hannesi á skömmum tíma gáfu heimamönnum góða von. Bæði lið gerðu sig sek um þreytuleg mistök í næstu sóknum en þegar 13 sekúndur voru eftir sendi Helgi Margeirs Aleks Simeonov á vítalínuna eftir mislukkaða sókn Tindastóls og ljóst að ef hann setti bæði skotin niður færu Valsmenn með stigin heim á Hlíðarenda. Valsmenn höfðu hinsvegar hitt afleitlega úr vítum, eða um 50%, og sú varð raunin hjá Aleks. Fyrra vítið fór niður en það síðara geigaði, Hannes náði frákastinu, kom boltanum á Dino sem sendi á Danero sem náði að grípa boltann og stökkva upp út við hliðarlínu og setja hann beint í við gríðarlegan fögnuð Síkisbúa. Þrjár sekúndur eftir og Valsmenn tóku leikhlé. Þeir náðu síðan ágætu skoti á lokasekúndinni en niður fór boltinn ekki og því framlengt í Síkinu. Staðan 84-84.
Stólarnir náðu loks tökum á leiknum í framlengingunni. Dino setti niður þrist og síðan nýtti Brynjar reynslu sína til að ná í víti. Axel gerði einu körfu sína í leiknum og breytti stöðunni í 94-86 og Danero sá til þess að staðan var 96-90 þegar mínúta var eftir. Valsmenn minnkuðu muninn í tvö stig þegar 35 sekúndur lifðu leiks. Það var því enn von fyrir Val. Brynjar klikkaði á 3ja stiga skoti þegar skotklukkan var að brenna út og rúmlega 10 sekúndur til leiksloka en Viðar náði sóknarfrákastinu. Valsmenn brutu á Dino sem setti fyrra skotið niður en það síðara skoppaði af hringnum en enn á ný hirti Viðar frákastið og leiktíminn kláraðist án þess að Valsmenn næðu boltanum. Lokatölur 97-94.
Þetta var strembinn leikur fyrir Stólana sem höfðu tapað fyrsta leiknum á nýju ári og máttu ekki við því að tapa öðrum leiknum í röð í toppbaráttu Dominos. Mikið mæddi á Brynjari (22 stig / 5 fráköst), Danero (22/10) og Dino (21/8st) og fóru þeir allir yfir 20 stigin í leiknum. Framlagshæstir voru Dino og Hannes en Nesi átti fínan leik, gerði 14 stig og tók sjö fráköst. Þó liði Tindastóls væru mislagðar hendur í leiknum og mikið um mistök þá skiluðu allir góðu framlagi og menn voru ekki á þeim buxunum að gefa sigurinn eftir. Valsmenn voru sem fyrr segir að spila vel og þá sérstaklega framan af leik. Allir sjö leikmenn liðsins sem komust á blað gerðu meira en tíu stig en stigahæstur var Simeonov með 16 stig en framlagshæstur var Raggi Natt sem gerði 12 stig og tók13 fráköst líkt og Simeonov. Valsmenn tóku 60 fráköst í leiknum á móti 43 Stólanna en það var á vítalínunni sem Valsmenn töpuðu leiknum, settu aðeins niður 17 af 33 vítum sínum og það reyndist liðinu dýrkeypt.
Nú er bara að krossa fingur og vona að Pétur og Urald fái sig góða af meiðslunum sem hrjá þá. Næsti leikur er eftir viku gegn Haukum í Hafnarfirði en þriðjudaginn 22. janúar koma Stjörnumenn í heimsókn í Síkið í Geysisbikarnum. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.