Stólarnir lögðu Blika af öryggi
Lið Tindastóls og Breiðabliks mættust í Síkinu í gærkvöldi í 20. umferð Dominos-deildarinnar. Blikar voru þegar fallnir og kaninn þeirra, Kofi, búinn að yfirgefa herbúðir þeirra. Það var því reiknað með næsta auðveldum sigri heimamanna en gestirnir komu á óvart og virtust hafa talsvert meiri áhuga á að spila leikinn en Stólarnir framan af leik. Stólarnir sperrtu stél í síðari hálfleik og stungu af án mikillar fyrirhafnar. Lokatölur 94-70.
Byrjunarlið Tindastóls var skipað þeim Alawoya, Brynjari, Pétri, Danero og Finnboga og því nokkuð ljóst að það átti að taka upp þráðinn frá því í Smáranum fyrir jól þegar Brilli setti Íslandsmetið í 3ja stiga skorun. Hann var reyndar kominn með tvo þrista eftir 70 sekúndur og allt stefndi því í að hann næði 75 þristum í leiknum í gær. Þá ákváðu Blikar að gera honum þetta aðeins erfiðara fyrir og spila vörn á kappann. Gestirnir byrjuðu leikinn raunar mjög vel og fóru í gegnum vörn Tindastóls líkt og hún væri bráðið smér. Stórskotalið Tindastóls skaut af miklum móð fyrir utan 3ja stiga línuna en voru ekki að hitta neitt sérlega vel. Jafnt var 13-13 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður en það voru Blikar sem sýndu betri leik það sem eftir var af leikhlutanum og leiddu 20-24 að honum loknum. Viss óróleika gætti á pöllunum í Síkinu þar sem stuðningsmenn Tindastóls voru ekki alveg sáttir við framlag sinna manna. Þeir höfðu ástæðu til og ekki skánaði leikur liðsins mikið framan af öðrum leikhluta. Þristar frá Dino og Axel minnkuðu muninn en Árni Hrafnsson dritaði niður þristum fyrir gestina eins og ekkert væri. Blikar voru yfir, 35-39, þegar tvær mínútur voru til leikhlés en þá loksins kviknaði á Tindastólsliðinu, hraðinn jókst og Dino minnkaði muninn í eitt stig með þristi og þá loks fann Pétur taktinn og setti niður tvo þrista á síðustu mínútunni og Stólarnir leiddu í leikhléi, 44-39.
Það má reyndar segja að það hafi pínu verið gangur mála í fyrri hálfleik að skot Stólanna skrúfuðust upp úr körfunni en skot Blika skoppuðu oní. Lukkan var því kannski með gestunum en þeir komust engu að síður allt of auðveldlega að körfu Stólanna. Tindastólsmenn mættu betur stemmdir í síðari hálfleikinn og það mátti strax greina meiri kraft og vilja hjá leikmönnum og nú voru menn betur uppi á táberginu í vörninni. Pétur setti fljótlega niður tvo þrista og munurinn kominn í ellefu stig og nokkuð ljóst í hvað stefndi. Skömmu fyrir lok þriðja leikhluta, í stöðunni 63-52, var dæmd óíþróttamannsleg villa og villa eftir brot á Pétri. Kappinn setti niður þrjú víti og síðan þrist eftir að Stólarnir tóku boltann inn og þá var nú fokið í flest skjól Blika. Staðan var 76-57 að loknum þriðja leikhluta og í fjórða leikhluta voru það mikið bekkjafélagar liðanna sem fengu að spreyta sig á svellinu. Munurinn var yfirleitt 16-20 stig framan af fjórða leikhluta en eftir einn sígildan frá Helga Margeirs var staðan 87-63 og lokatölur sem fyrr segir 94-70.
Þetta var nú langt frá því að vera skemmtilegasti leikur sem fram hefur farið í Síkinu og það var nánast eins og Tindastólsmenn væru búnir að gleyma leiknum áður en þeir spiluðu hann. Það þarf hins vegar að klára svona leiki og það gerðu heimamenn af öryggi þegar upp var staðið. Pétur var rólegur framan af leik en datt í stuð rétt fyrir hlé og spilaði vel í síðari hálfleik. Hann var stigahæstur í Síkinu með 21 stig og hirti sex fráköst. Brynjar skilaði 14 stigum og virtist ekki sætta sig við neitt slen í gærkvöldi og keyrði sína menn áfram. Dino skilaði 13 stigum og Alawoya átti ágætan síðari hálfleik eftir dapran fyrri hálfleik. Annars fengu allir leikmenn Stólanna að láta ljós sitt skína og var spilatímanum skipt nokkuð bróðurlega á milli manna.
Lið Breiðabliks virtist vel stemmt og ákveðið í að gera sitt besta í Síkinu. Stigahæstur í þeirra liði var Árni Elmar Hrafnsson sem gerði 16 stig og var 5/8 í þristum, líkt og Pétur í liði Tindastóls. Þá áttu Sveinbjörn Jóhannesson, Arnór Hermannsson og Snorri Vignisson ágætan leik fyrir gestina.
Næsti leikur Tindastóls er nú á sunnudaginn gegn liði Skallagríms í Borgarnesi en Skallar féllu í gærkvöldi eftir tap á Hlíðarenda. Síðasta umferðin í Dominos-deildinni verður síðan leikin að viku liðinni en þá mætast í Síkinu liðin sem eru nú jöfn í 3.-4. sæti, Tindastóll og Keflavík. Það ætti að geta orðið hörkuleikur og áhugavert að sjá hvar lið Tindastóls stendur fyrir komandi úrslitakeppni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.