Stólarnir hraðafgreiddir í DHL-höllinni

Ekki sóttu Tindastólsmenn gull í greipar KR-inga þegar liðin áttust við í DHL höll Vesturbæinga í gærkvöldi. Þeir stuðningsmenn Tindastóls sem fylgdust með leiknum í beinni á netinu þurftu nánast á áfallahjálp að halda eftir fyrsta leikhluta en svo virtist sem heimamenn væru að afgreiða hraðsendingu, svo mikið lá þeim á að senda Stólana norður með skottið á milli lappanna. Lokatölur reyndust 106-71.

Tindastólsmenn urðu reyndar fyrir áfalli strax í upphitun þegar í ljós kom að leikstjórnandi liðsins, Michael Giovacchini, var meiddur. Hann reyndi að spila en það varð fljótlega ljóst að hann gat ekkert beitt sér og lék aðeins fyrstu 7 mínútur leiksins og var það sannarlega skarð fyrir skyldi. Stólarnir komust yfir 3-4 en síðan ekki söguna meir, KR-ingar gengu á lagið og gerðu næstu 11 stigin. Varnarleikur gestanna var ekki upp á marga fiska og lagaðist ekki þó Kalli tæki leikhlé til að stoppa í götin og að loknum fyrsta leikhluta var munurinn orðinn 22 stig, 36-14.

Ekki náðu Tindastólsmenn að snúa dæminu við í öðrum leikhluta en Fannar Ólafs lék Boyd oft illa og komst hvað eftir annað framhjá honum í sókninni. Helgi Margeirs var atkvæðamestur hjá Stólunum í fyrri hálfleik og gerði þá 12 stig. Staðan í hálfleik 60-30.

Heldur jafnaðist leikurinn í síðari hálfleik enda kannski ekki mikil ástæða fyrir heimamenn að keyra á fullu gasi, leikurinn í raun búinn í hálfleik. Að loknum þriðja leikhluta var staðan 80-49 og lokatölur sem fyrr segir 106-71. Stigahæstir í liði Tindastóls voru Boyd með 21 stig, Svavar með 17 og Helgi Margeirs með 14.

Frammistaða Tindastóls í þeim þremur deildarleikjum sem liðið hefur spilað frá áramótum hefur verið óásættanleg og það var í raun aðeins í heimaleiknum gegn Grindvíkingum í bikarnum sem liðið hefur sýnt lit. Nú eru átta umferðir eftir í deildinni og liðið á enn ágæta möguleika á sæti í úrslitakeppninni en til að komast þangað verða leikmenn að hrista af sér sliðruorðið og spila eins og þá raunverulega hungri í sigur.

Það er rétt að benda á að þessir þrír fyrstu leikir eftir áramótin hafa verið gegn nokkrum sterkustu liðum deildarinnar og því kannski rétt að Tindastólsliðið setji sig í þær stellingar að nú hefjist nýtt mót þar sem hver leikur er bardagi sem verður að vinnast. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir