Stólarnir heillum horfnir
Ágætt lið Reynis úr Sandgerði sigraði Tindastól 2-1 á Sauðárkróksvelli í gærdag. Gestirnir voru sterkari aðilinn allan tímann en Tindastólsmenn voru slakir í gær, virkuðu hreinlega ekki í formi miðað við andstæðinginn.
Aðstæður voru ágætar, smá sunnangola í upphafi og síðan rigningarskúr en rjómablíða eftir það. Sandgerðingar tóku völdin á miðjunni strax í upphafi og ógnuðu marki Stólanna af og til en Gísli var góður í markinu og vörnin hélt að mestu. Tindastólsmenn voru varla með fyrstu 35 mínúturnar hvað sóknarleikinn varðaði en liðið fékk 2-3 fín færi undir lok hálfleiksins en tókst ekki að nýta þau. Staðan 0-0 í hálfleik og máttu Stólarnir prísa sig sæla. Það var ekki að sjá að lið heimamanna væri að berjast fyrir sæti í deildinni, leikmenn voru á eftir gestunum á flesta lausa bolta, sendingar voru ónákvæmar, móttaka slök, menn voru seinir og virtust nánast þróttlausir. Stuðningsmenn vonuðust til að Tindastólsmenn hresstust í síðari hálfleik.
Það var öðru nær. Nú virtust gestirnir geta opnað vörn Stólanna þegar þá langaði til. Fyrsta markið kom á 54. mínútu en þá komst leikmaður Reynis upp vinstri kantinn, lék inn á teig og sendi fastan bolta inn á markteig og þar varð Stefán Arnar fyrir því óláni að pota boltanum í eigið mark undir pressu. Alli reyndi að tala Stólana upp um nokkra gíra en spilið var í molum og gestirnir gengu á lagið og bættu við laglegu marki á 67. mínútu. Stefán Arnar fékk síðan að líta rauða spjaldið á 73. mínútu eftir að hafa gripið utan um einn Reynismanninn sem var sloppinn inn fyrir vörn Stólanna.
Nú urðu Stólarnir engu að síður sækja einum færri og Árni Einar dreifði spilinu ágætlega en færin létu á sér standa. Hvað eftir annað áttu Sandgerðingar kost á fínum skyndisóknum en voru of æstir og sóknirnar runnu út í sandinn. Síðustu mínúturnar reyndu Stólarnir að pressa og á 90. mínútu uppskáru þeir mark alveg uppúr þurru, Sinisa Kekic skallaði aftur á markvörð sinn sem rétt náði að slá boltann í þverslána og Ingvi Hrannar fylgdi á eftir og minnkaði muninn í 2-1. Ekki leið mínúta þar til Stólarnir hefðu getað jafnað því eftir hornspyrnu náðu Stólar skalla að marki sem markvörðurinn blakaði í þverslána og yfir markið. Lokatölur 1-2 fyrir Reyni.
Tindastólsliðið var slakt í gær og sumir leikmenn nánast farþegar í liðinu. Það var auðvitað skarð fyrir skildi að Davíð Rúnars var í banni en hann heldur ekki liðinu einn uppi í 2. deild. Nú eru aðeins fjórar umferðir eftir í deildinni og lið Tindastóls í 11. sæti með 17 stig, Magni með 19 og ÍH/HV og KS/Leiftur með 20. Tindastólsmenn þurfa því að fara að vinna leiki ef þeir ætla sér ekki að sumrinu í hafragrautnum í 3. deild næsta sumar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.