Stólarnir gerðu jafntefli gegn Úlfunum

Markamaskínan hrikalega, Jóhann Daði. MYND: ÓAB
Markamaskínan hrikalega, Jóhann Daði. MYND: ÓAB

Tindastóll og Úlfarnir mættust í dag á Sauðárkróksvelli í B-riðli 4. deildar. Lið Úlfanna er einskonar b-lið Fram og að miklu leiti skipað strákum um tvítugt sem komu upp í gegnum öflugt yngri flokka starf Fram. Það sýndi sig að þeir gátu spilað fótbolta og leikurinn var ágætlega spilaður og bæði lið vonsvikin með jafntefli í leikslok. Lokatölur 2-2.

Tindastólsmenn voru sterkari aðilinn framan af leik og Basi kom Stólunum yfir með marki á 21. mínútu. Eftir það náðu gestirnir betri tökum á leiknum og jöfnuðu sanngjarnt á 38. mínútu en þar var á ferðinni Hilmar Þór Sólbergsson.

Aftur voru það heimamenn sem byrjuðu síðari hálfleik betur og Jóhann Daði kom Stólunum yfir að nýju en eftir laglega sókn upp vinstra megin barst boltinn yfir á fjær og þar var trommarinn mættur á auðum sjó og bombaði í markið. Úlfarnir tóku miðju og voru strax hársbreidd frá því að jafna en þeir urðu að bíða í 18 mínútur eftir jöfnunarmarkinu. Þá fengu þeir aukaspyrnu við hægra vítateigshornið hjá Stólunum, dúndruðu í vegginn og boltinn barst á Hilmar Þór sem negldi boltanum upp í bláhornið frá vítateigslínu.

Það sem eftir lifði leiks varð leikurinn stórkarlalegri, mikið um langar sendingar en nokkur færi á báða bóga en hvorugu liðinu tókst að næla í stigin þrjú.

Þetta var annar leikur Tindastóls á heimavelli í 4. deildinni og annað jafnteflið. Það er nokkuð ljóst að liðið er í sterkum riðli en það er nú bara þannig að það er engin auðveld leið upp úr 4. deildinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir