Stólarnir eins og létt ídýfa fyrir Þróttara í Vogunum

Það er bratta brekkan í þessu hjá Stólunum sem stendur. Bjarki Árna varð fyrir því óláni að gera sjálfsmark í gær. MYND: ÓAB
Það er bratta brekkan í þessu hjá Stólunum sem stendur. Bjarki Árna varð fyrir því óláni að gera sjálfsmark í gær. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls spilaði í gær þriðja leik sinn í 2. deildinni í sumar og var þá leikið við Þrótt úr Vogunum á Vogabæjarvelli og reyndust Stólarnir varla meira en létt Vogaídýfa fyrir heimamenn. Þeir náðu forystunni strax í byrjun og unnu að lokum öruggan 4-0 sigur.

Það var Örn Rúnar Magnússon sem náði forystunni fyrir Þróttara á 8. mínútu og á 24. mínútu bætti Jordan Chase Tyler við öðru marki. Það var síðan Brynjar Kristmundsson sem gerði þriðja mark heimamanna á 42. mínútu og staðan 3-0 í hálfleik. Tindastólsmönnum gekk betur að verjast í síðari hálfleik og það var ekki fyrr en undir lok venjulegs leiktíma sem Bjarki Már Árnason, spilandi þjálfari Tindastóls, skoraði en því miður í eigið mark. Ef við þekkjum Bjarka rétt þá verður ekki langt að bíða þess að hann bæti fyrir þetta.

Lokatölur því 4-0 og lið Tindastóls vermir botn 2. deildar ásamt Seyðfirðingum. Næsti leikur Stólanna verður væntanlega hér heima á Sauðárkróksvelli sem er nú loks farinn að taka lit. Vonandi verður völlurinn leikfær næstkomandi laugardag og við skulum líka vona að lukkan verði meiri á heimavelli. Mótherjarnir verða Víðismenn úr Garðinum en þeim var líkt og liði Tindastóls spáð erfiðu gengi í sumar. Víðir er í 10. sæti með eitt stig að loknum þremur umferðum. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir