Stjórnarformaður Drangeyjarfélagsins gagnrýnir stjórnsýslu Umhverfisstofnunar

Úr Drangey. MYND AF FB-SÍÐU VIGGÓS JÓNSSONAR
Úr Drangey. MYND AF FB-SÍÐU VIGGÓS JÓNSSONAR

Viggó Jónsson, stjórnarformaður Drangeyjarfélagsins í Skagafirði, birti í gær færslu á Facebook þar sem hann furðar sig á vinnubrögðum Umhverfisstofnunar varðandi skipan í starfshóp sem vinnur við stjórnunar- og verndaráætlun lunda og fjallar því að hans sögn um mögulegt bann á sölu lunda. „Ég tel skipan starfshópsins fáránlega stjórnsýslu og augljóst að markmiðið er skýrt og niðurstaðan ákveðin fyrirfram,“ segir Viggó í færslunni.

Hann er að sjálfsögðu ekki hlutlaus sjálfur, enda kemur fram í færslunni að markmið Drangeyjarfélagsins sé m.a. að viðhalda veiðiskap í Drangey. Hann segir hins vegar að Umhverfisstofnun hafi það að markmiði að hafa gott samráð við hagsmunaaðila – hverjir sem það nú eru.

Hann telur upp að í starfshópnum sé einn skotveiðimaður, þrír aðilar frá Umhverfisstofnun, einn frá Náttúrustofu Suðurlands, tveir frá Fuglavernd, einn frá Náttúrustofnun Íslands, einn aðili er í hópnum frá háskóla í Danmörku og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið tilnefnir einn aðila. „Nú er spurt; hvaða hagsmunaaðilar eru þetta?“ spyr Viggó og finnst augljóslega undarlegt að svo virðist sem lundaveiðimenn teljist ekki til hagsmunaaðila og enginn vilji virðist til að hlusta á þeirra hugmyndir eða skoðanir.

„Ég er ekki viss um að skotveiðimenn skjóti mikið af lunda, ég fullyrði að það er ekki gert hér í Skagafirði,“ segir Viggó um leið og hann veltir fyrir sér hvers má vænta af fulltrúum Fuglaverndar í starfshópnum. „Það eru til víða um land veiðifélög sem stunda háfaveiði og mér finnst nú lágmark að fá sjónarmið þeirra á þetta borð,“ bætir hann við.

„Vera má að það sé góð stjórnsýsla að ganga fram hjá þeim veiðimönnum sem þekkja hvað best til atferlis lundans og hafa með eigin augum í áratugi séð viðkomu hans á þeim stöðum sem þeir veiða. Hnignun stofnsins á einu svæði, vegna fæðuskorts, þýðir ekki að stofninn standi [illa] á öðrum svæðum,“ segir Viggó fyrir hönd Drangeyjarfélagsins í færslunni og klikkir út með því að tjá Feyki að sér finnist algjörlega út í hött hvernig menn haga sér.

Þess má geta að Viggó fullyrðir að lunda hafi farið fjölgandi í Drangey.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir