Stjórn LÍÚ fordæmir vinnubrögð ráðherra við takmarkanir á dragnótaveiðum

„Stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna fordæmir þau vinnubrögð sem sjávarútvegs- og landbúnaðrráðherra viðhafði í aðdraganda og við útgáfu nýlegrar reglugerðar um takmarkanir á dragnótaveiðum. Reglugerðin gildir til fimm ára frá og með 1. september næstkomandi og tekur til sjö fjarða." Svo segir í ályktun sem stjórn LÍÚ hefur samþykkt.

Ályktunin fylgir hér á eftir í heild: 

Stjórn LÍÚ fordæmir vinnubrögð ráðherra við takmarkanir á dragnótaveiðum

Stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna fordæmir þau vinnubrögð sem sjávarútvegs- og landbúnaðrráðherra viðhafði í aðdraganda og við útgáfu nýlegrar reglugerðar um takmarkanir á dragnótaveiðum. Reglugerðin gildir til fimm ára frá og með 1. september næstkomandi og tekur til sjö fjarða.

Engin vísindaleg rök liggja að baki þessari nýju reglugerð. Ekkert tillit var tekið til nýlegrar skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar um rannsóknir í Skagafirði en þar segir að ekkert bendi til þess að dragnót hafi áhrif á botndýralíf. Ekkert tillit var heldur tekið til athugasemda dragnótamanna og annarra hagsmunaaðila, sem lögðust gegn þessum hugmyndum. Ráðherra kallar þetta í tilkynningu „að fara bil beggja."

Allt var þetta mál keyrt áfram á undarlega skömmum tíma. Fréttatilkynning var send út 30. apríl, frestur gefinn til 20.maí fyrir athugasemdir og niðurstaða ráðherra tilkynnt  fjölmiðlum 1. júní án þess að kynna hana hagsmunaaðilum eins og lofað hafði verið. Þar gekk ráðherra á bak orða sinna.

Vinnubrögð á borð við þau sem hér um ræðir eru óásættanleg. Þau uppfylla ekki kröfur um fagmennsku né gagnsæja og hlutlæga stjórnsýslu. Það alvarlegasta í málinu er þó að hér er um verulega íþyngjandi takmarkanir að ræða sem ógna atvinnu og forsendum byggðar í fámennum sveitarfélögum. Stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að draga ákvörðun sína til baka.

/liu.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir