Stjórn heilbrigðisstofnana heim í hérað
Á undanförnum árum höfum við ítrekað séð stjórnvöld ráðast harkalega gegn heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Þessi aðför heldur áfram nái fjárlagafrumvarp næsta árs fram að ganga en þar er boðaður áframhaldandi niðurskurður heilbrigðisstofnana víða um land. Íbúar hafa eðlilega miklar áhyggjur enda er heilbrigðisþjónusta, eins og allir vita, undirstaða hvers byggðalags.
Íbúar hafa lítið um það að segja hvernig málum er háttað enda er ráðherra málaflokksins einvaldur í ákvörðunum sínum. Nú hefur verið lögð fram tillaga á Alþingi til að bregðast við þessari þróun. Flutningsmenn tillögunar eru auk undirritaðs fjórir aðrir þingmenn Framsóknarflokksins og einn þingmaður vinstri grænna.
Tillagan felur í sér að heilbrigðisráðherra verði falið að undirbúa og leggja fram á næsta þingi lagafrumvarp sem tryggir að fulltrúar sveitarstjórna og starfsmenn heilbrigðisstofnana taki beinan þátt í að skipuleggja þjónustu heilbrigðisstofnana í heimabyggð. Til að þetta geti orðið að veruleika þarf að skipa sérstakar stjórnir í hverju heilbrigðisumdæmi sem eiga að veita ráðgjöf og hafa eftirlit með rekstri þeirra.
Í núverandi lögum um heilbrigðisþjónustu er gert ráð fyrir því að forstjórar heilbrigðisstofnana hafi einir umsjón með rekstri þeirra. Í lögunum er hvergi gert ráð fyrir að fulltrúar sveitarfélaga eða starfsmenn heilbrigðisstofnana geti með beinum hætti tekið þátt í að skipuleggja þá þjónustu sem stofnunin veitir. Áður en núverandi lög tóku í gildi voru starfræktar stjórnir á þjónustusvæðunum sem veittu ráðgjöf og höfðu eftirlit með rekstri heilbrigðisstofnana.
Nái frumvarpið fram að ganga þá eykur það tengsl sveitarfélaga við heilbrigðisstofnanir, auðveldar samhæfingu og tryggir betur að skipulag sé í sátt við heimamenn. Þetta er sérstaklega mikilvægt á tímum sem þessum þar sem verið er að ráðast harkalega gegn heilbrigðisstofnunum víða á landinu án nokkurs samráðs við heimamenn á hverju svæði.
Í framhaldinu þurfum við landsbyggðarfólk að skoða alvarlega hvort ekki sé rétt að ráðast í mun róttækari breytingar á samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Slíkt krefst dýpri umræðu en sú staðreynd er að verða æ ljósari að ríkisvaldið og embættismenn sem þar ráða för eru að verða stærsta ógn landsbyggðarinnar.
- Ásmundur Einar Daðason
- Alþingismaður Framsóknarflokksins
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.