Stjarnan stal stigunum

Það var rétt rúmlega hörkuleikur í Síkinu í kvöld þegar Tindastóll tók á móti Stjörnunni í Iceland Express deildinni. Leikurinn var æsispennandi og þá sérstaklega í síðari hálfleik þegar liðin skiptust á um að hafa forystuna. Stjarnan var skrefinu á undan síðustu mínútur leiksins en Stólarnir jöfnuðu leikinn með harðfylgi en síðustu körfu leiksins gerðu gestirnir eftir að dómarar leiksins slepptu því sem áhofendum og leikmönnum Tindastóls þótti augljóst brot á leikmanni Stólanna. Lokatölur 68-70.

Leikurinn átti að fara fram í gær en var frestað og því spilaður í kvöld. Stólarnir voru seinir í gang og þegar fyrsti leikhluti var nánast hálfnaður var staðan 2-11 fyrir gestina. Þá tóku Stólarnir aðeins við sér en munurinn í fyrsta leikhluta yfirleitt 4-10 stig. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 14-18. Baráttan hélt áfram í öðrum leikhluta og Stjörnumenn einbeittu sér að því að loka á Cedric Isom og skoraði hann aðeins 3 stig í fyrri hálfleik. Hreinn Birgis átti fína innkomu og var ekkert að hika þegar færi gafst. Þá átti stóri bróðir hans, Svavar góðan leik og hann, ásamt bekknum hjá Stólunum, hélt heimamönnum inni í leiknum. Staðan í hálfleik 31-35.

Stólarnir byrjuðu þriðja leikhluta vel og jöfnuðu 35-35. Síðan var leikurinn bara spennandi. Nýr leikmaður Stjörnunnar, Djordje Pantelic, var ekki lipur á velli en seigur var kappinn og stríddi heimamönnum bæði utan 3ja stiga línunnar og undir körfunni. Heimamenn voru allan leikinn ósáttir við kappann, þótti hann skrefa og dúlla sér í teignum án þess að dómarar leiksins gerðu miklar athugasemdir. Þegar langt var liðið á leikhlutann höfðu dómararnir dæmt 15 villur á heimamenn en aðeins 5 á gestina og þótti áhorfendum heldur halla á Stólana í dómgæslunni.

Að loknum þriðja leikhluta voru heimamenn stigi yfir, 53-52. Tindastólsmenn fengu færi á að bæta við muninn en voru klaufar og fyrir vikið náði Stjarnan yfirhöndinni á ný og náðu ágætu forskoti. Stólarnir hertu á varnarleiknum og fóru að vinna boltann. Heppnin var þó ekki með liðinu þegar kom að skotum því boltinn skrúfaðist hvað eftir annað upp úr körfunni. En Stólarnir nálguðust Stjörnumenn og þegar 35 sekúndur voru eftir jafnaði Isom með 3ja stiga körfu.

Ekki vantaði stemninguna í Síkið og fólk nánast gekk af göflunum. Stjörnumenn fóru í sókn og vörn Tindastóls gerði þeim lífið leitt og á endanum tóku þeir skot sem rataði ekki rétta leið. Heimamenn virtust vinna boltann en gestirnir létu sig ekki, Visockis virtist svo hafa boltann en dómarar leiksins dæmdu ekkert þegar Fannar reif af hann af honum og skoraði með góðu skoti. Stólarnir tóku leikhlé og 5,5 sekúndur á klukkunni. Þegar leikurinn hófst á ný fundu Tindastólsmenn ekki Isom og Hreinn varð að taka skot úr afkáralegri stöðu sem rataði ekki í körfuna.  Stjörnumenn fögnuðu því dýsætum sigri, 68-70, á meðan rauk úr stuðningsmönnum og leikmönnum Tindastóls sem voru allt annað en sáttir.

Sigurinn hefði í raun getað lent hvoru megin sem var en að þessu sinni voru það Stjörnumenn sem höfðu lukkuna sín megin - og einhverjir mundu segja dómarana líka. Heimamenn sýndu mikla þrautseigju og létu ekki slæma byrjun slá sig út af laginu. Cedric Isom og Justin Shouse fundu ekki fjalirnar sínar í kvöld enda gáfu þeir hvor öðrum fá færi í sókninni.

Næsti leikur Tindastóls er í Keflavík og þar verður við ramman reip að draga. Ekki verður annað séð en að öll liðin í deildinni hafi notað janúar mánuð til að styrkja sig og því lítið að marka fyrri viðureignir í vetur þegar liðin eru að mætast. Næsti heimaleikur er gegn Snæfelli þann 4. mars. Áfram Tindastóll!

Stigahæstu leikmenn Tindastóls: Svavar 22, Cedric Isom 15.

Stigahæstu leikmenn Stjörnunnar: Djordje Pantelic 22, Fannar Helgason 16, Jovan Zdraveski 12.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir