Sterkur sigur í háspennuleik gegn Haukum
Tindastóll og Haukar mættust í Síkinu í gærkvöldi en liðin hafa eldað grátt silfur saman í vetur. Leikurinn var spennandi og skemmtilegur. Arnar átti stjörnuleik og þá ekki hvað síst í fyrri hálfleik en á æsispennandi lokamínútum var það Keyshawn sem dró Stólarútuna yfir endalínuna. Þetta var fyrsti sigurleikur Stólanna gegn einhverju liðanna í fjórum efstu sætum Subway-deildarinnar í vetur og virkar vonandi sem vítamínsprauta á hópinn fyrir úrslitakeppnina. Lokatölur 84-82.
Stólarnir unnu bikarleik liðanna í haust nokkuð örugglega en eftir kæru Hauka vegna talningarmistaka var leikurinn dæmdur Stólunum tapaður. Það leit síðan allt út fyrir að Stólarnir næðu að koma fram hefndum þegar liðin mættust í deildarkeppninni á Ásvöllum í byrjun desember en eftir að hafa leitt með 15 stigum í hálfleik köstuðu strákarnir okkar sigrinum frá sér í síðari hálfleik og töpuðu með fimm stiga mun, 80-75.
Leikurinn í gær var hnífjafn fram í annan leikhluta og í raun aðeins í öðrum leikhluta sem Stólarnir virtust ætla að stinga af. Arnar hóf leik með tveimur þristum en Haukar voru skrefinu á undan í fyrsta leikhluta og leiddu 17-19 að honum loknum. Ef Arnar var góður í fyrsta leikhluta, með tíu stig, þá var hann enn heitari í öðrum leikhluta, gerði í honum tólf stig og sá öðrum fremur til þess að lið Tindastóls gekk til búningsherbergja í hálfleik með nokkuð væna forystu, staðan 46-35.
Haukarnir voru fljótir að koma sér inn í leikinn í síðari hálfleik því eftir tveggja mínútna leik höfðu þeir náð 10-0 kafla og einu stigi munaði á liðunum. Eftir þennan kafla var allt stál í stál, Stólarnir þó yfirleitt með 2-6 stiga forystu en þegar um tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta kom Giga Haukum yfir, 62-63,. Geks svaraði fyrir Stólana og þegar fjórði leikhluti hófst var staðan 68-67 fyrir heimaliðið. Gestirnir komust snemma fjórum stigum yfir, 70-74, en Arnar skellti þá í sinn sjötta þrist en áfram höfðu Haukarnir yfirhöndina. Gestirnir náðu fimm stiga forystu þegar þrjár mínútur voru til leiksloka eftir að Darwin Davis Jr. setti þrist. Staðan 75-80.
Það sem eftir lifði leiks spiluðu Stólarnir frábæra vörn og nánast lokuðu körfunni. Brotið var á Keyshawn í þriggja stiga skoti og hann setti skotin þrjú niður og minnkaði í tvo stig, Orri Gunn kom Haukum í 78-82 en þegar tvær mínútur voru eftir var brotið á Geks og hann setti bæði sín víti niður. Þegar hálf mínúta var eftir braust Key í gegnum vörn Hauka, setti erfitt skot niður og fékk víti í bónus. Stólarnir komnir yfir, 83-82, og í síðustu sókn Hauka náði Davis ekki að skora í sæmilegu færi og Arnar tók frákastið og Stólarnir með boltann þegar þrjár sekúndur voru eftir. Brotið var á Key þegar tæpar tvær sekúndur voru eftir og hann fékk tvö víti. Setti það fyrra niður en klikkaði á því seinna sem hentaði einkar vel því Haukum gafst ekki tími til að taka leikhlé eða ná skoti á þeim tíma sem lifði.
Hnífjafn leikur tveggja góðra liða
Það má segja að aðeins Arnar hafi verið heitur í liði Stólanna í gær en Keyshawn gerði mikilvæg stig á lokakaflanum. Arnar endaði með 30 stig, Key gerði 16 stig en aðrir voru með sjö stig eða minna. Það tók Drungilas aðeins 16 mínútur að næla sér í fimm villur og þá var ágætt að Siggi virtist búinn að hrista af sér meiðsli og veikindi en hann gerði sjö stig, tók fjögur fráköst og átti fimm frábærar stoðsendingar. Í liði Hauka var Mortensen atkvæðamestur með 19 stig og tíu fráköst og Hilmar Smári var með 17 stig.
Sem fyrr segir var leiurinn hnífjafn og litlu munaði á flestum tölfræðiþáttum. Haukar tóku örlítið fleiri fráköst, Stólarnir áttu örlítið fleiri stoðsendingar, liðin fengu jafn margar villur, Haukar voru með örlítið betri 3ja stiga nýtingu en Stólarnir hittu talsvert betur innan teigs og Haukar töpuðu bolta meira en Stólar. Ekki er ólíklegt að þessi lið mætist í úrslitakeppninni nema Keflvíkingar haldi áfram að tapa leikjum en Suðurnesjapiltarnir hafa tapað þremur leikjum í röð og eru með jafn mörg stig og Haukar, 24, en eiga leik til góða. Stólarnir koma þar á eftir með 22 stig en bæði Haukar og Keflavík eiga innbyrðisviðureignirnar á Stólana sem þýðir að lið Tindastóls þarf að enda deildarkeppnina með fleiri stig en þau til að ná í heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.
En frábær sigur í þéttsetnu Síkinu sem lið Tindastóls nær vonandi að byggja á. Stuðningsmenn liðsins um allt land eru í það minnsta klárir í slaginn. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.