Stelpurnar komnar á bragðið

Stólastúlkur fagna góðum sigri á liði ÍA. MYNDIR: ÓAB
Stólastúlkur fagna góðum sigri á liði ÍA. MYNDIR: ÓAB

Leikið var í 1. deild kvenna á Sauðárkróksvelli sl. föstudagskvöld en þá komu Skagastelpur í heimsókn. Þær sigruðu vængbrotið lið Tindastóls í fyrstu umferð fyrr í sumar, 6-0, en á föstudaginn sýndu Stólastúlkur að þær hafa tekið miklum framförum og sigruðu að þessu sinni örugglega. Lokatölur 2-0.

Líkt og í sigurleiknum gegn ÍR á dögunum þá börðust heimastúlkur fyrir hverjum bolta og létu gestina aldrei í friði. Lið Tindastóls hafði fengið nokkur ágæt færi til að ná forystunni í leiknum áður en Bryndís Rut Haraldsdóttir skoraði með glæsiskalla eftir hornspyrnu á 38. mínútu leiksins. Staðan 1-0 í hálfleik. Aðeins voru liðnar átta mínútur af síðari hálfleik þegar Emily Key bætti við öðru marki Tindastóls, tók boltann á lofti í teig Skagastúlkna og setti hann í bláhornið eftir laglega sókn. Eftir þetta reyndu gestirnir að koma sér inn í leikinn en gekk ekkert að skapa sér færi, enda voru Tindastólsstúlkur fastar fyrir og ákveðnar að landa stigunum þremur.

Sigurinn var sanngjarn og ef stelpurnar halda einbeitingunni eins vel og þær gerðu í þessum leik, þá verður enginn hægðarleikur að sigra þær í næstu leikjum. Ólína Sif Einarsdóttir var mögnuð í leiknum og í raun erfitt að pikka einhverja leikmenn út, þær spiluðu og börðust allan leikinn og aldrei gefið eftir. Þá má geta þess að liðið var án varnarjaxlsins Evu Banton að þessu sinni.

Eftir sem áður eru stelpurnar í neðsta sæti 1. deildar með sjö stig, líkt og lið Víkings Ólafsvík, sem á þó tvo leiki inni. Þar næst fyrir ofan er lið Hamranna með 10 stig en þær koma einmitt í heimsókn á Krókinn þann 3. ágúst.

 

Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir