Starfsmannafélag HSB ályktar
Stjórn Starfsmannafélags Heilbrigðisstofnunar Blönduóss hefur sent frá sér ályktun þar sem farið er fram á að Heilbrigðisráðherra og aðrir þingmenn endurskoði fjárlögin er varða stofnunina og hún leiðrétt af sanngirni og réttlæti með hag stofnunarinnar og íbúa byggðarlagsins að leiðarljósi.
Ályktun stjórnar Starfsmannafélags Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi (HSB) vegna fyrirhugaðs niðurskurðar til HSB á fjárlögum 2010.
Stjórn Starfsmannafélagsins mótmælir harðlega þeim niðurskurði til Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi sem fram kemur í fjárlögum ársins 2010 og er mun meiri niðurskurður en á mörgum öðrum heilbrigðisstofnunum. Telur stjórnin að sérstaklega sé vegið að þessari stofnun og að eðlilegt sé að samræmis sé gætt á milli sambærilegra stofnana í landinu.
Á yfirstandandi ári var fjármagn til HSB skorið niður um 45 milljónir og nú er krafist niðurskurðar um 56 milljónir og það gera 101 milljón alls eða rúmlega 20% á tveimur árum.
Hversu langt á þetta að ganga? Hvar er hægt að spara meira þegar búið er að hagræða í mörg ár? Er ekki verið að tala um að hlúa að öldruðum og styðja við atvinnulífið?
Ef þetta gengur eftir er ljóst að segja verður upp fjölda starfsmanna þar sem undanfarin ár hefur verið hagrætt eins og mögulegt er á öllum sviðum, m.a. með fækkun starfsmanna. Þetta mun leiða af sér verulega skerta þjónustu við sjúklinga, heimilismenn og íbúa héraðsins sem og ferðamenn þar sem þessi stofnun er eina sjúkrahúsið sem stendur við þjóðveg 1 frá Akureyri til Reykjavíkur.
Einnig er ekki sýnilegt að starfsfólk sem lendir í uppsögnum hafi í önnur störf að hverfa eins og staðan er í dag. Þar með tapast mikill mannauður sem stofnunin býr yfir því stór hluti starfsfólkins hefur unnið hér um langt árabil. Hver er ávinningurinn af því fyrir ríkið og samfélagið ef það fólk sem sagt yrði upp hér færi beint á atvinnuleysisbætur?
Stjórn Starfsmannafélags HSB fer fram á að fjárlögin er varða þessa stofnun verði endurskoðuð og leiðrétt af sanngirni og réttlæti með hag stofnunarinnar og íbúa þessa byggðarlags að leiðarljósi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.