Starfsfólk HSB ekki sátt við heilbrigðisráðherra
Undirskriftarhópur Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi sendi frá sér athugasemdir vegna viðtals ráðherra í Feyki fyrir skömmu þar sem bent er á nokkur atriði. Það er Bóthildur Halldórsdóttir starfsmaður Þvottahúss HSB sem fer fyrir hópnum.
Í fyrsta lagi viljum við bara fá að sitja við sama borð og aðrar stofnanir þegar kemur að niðurskurði, sem augljóst er að við gerum ekki því samkvæmt gögnum sem fyrir liggja og allir geta skoða, þá er mest skorið niður hjá okkur.
Í öðru lagi þá segir Álfheiður að HSB hafi á sínum tíma verið úthlutað of miklu í fjárlögum og að ofgreitt hafi verið fyrir sjúkrarúm sem ekki hafi verið nýtt og það þurfi að endurgreiða á 3 árum. Þetta kemur ekki fram í þingskjölum þegar niðurskurður er útlistaður nánar. Samkvæmt upplýsingum þá er biðlisti hér eftir sjúkrarými og enginn hér kannast við að þetta sé raunin, þ.e. að ofgreiðslur hafi átt sér stað.
Í þriðja lagi þá er þetta svokallaða reiknilíkan tæplega rétt upp sett og hefur kannski ekki verið lengi. Í þessum útreikningum sem ákvarða útgjöld HSB er ekki gert ráð fyrir t.d. sjúkrabílum, íbúðum, heilsugæslu á Skagaströnd né vöruhækkunum sem eiga sér stað á öllum sviðum, nú síðast í dag kom tilkynning um heitavatnsgjald sem án efa er ekki gert ráð fyrir í þessu reiknilíkani.
Nú í fjórða lagi á ekki að segja neinum upp í öllum þessum niðurskurði, bara lækka laun hjá þeim sem mest hafa hjá HSB, laun sem eru þó ekkert sérstaklega há né að um sé að ræða svo mörg stöðugildi að einhverju nemi.
Að lokum segir Álfheiður að HSB sé vel í stakk búið til að spara meira en aðrar stofnanir þar sem rekstur þess hafi verið með eindæmum góður síðastliðin ár og því sé óhætt að gera kröfu um meira. Þessi góði rekstur síðastliðin ár er kominn til vegna þess að hér hefur virkilega verið leitað allra leiða til að spara án þess að það komi niður á þeirri þjónustu sem hér á að vera hægt að bjóða upp á. Að ganga lengra í sparnaði en nú þegar hefur verið gert, vekur upp spurningar um hvort í kjölfarið hægt að bjóða upp á þá þjónustu sem við eigum kröfu á samkvæmt mannréttindayfirlýsingu.
Það er von okkar að þessi mál verði leiððrétt sem fyrst.
Með fyrirfram þökk
F.h. undirskriftarhópsins
Bóthildur Halldórsdóttir
Starfsmaður Þvottahúss HSB.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.