Starfsfólk HS átelur vinnubrögð ráðherra
Starfsfólk Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki átelur í ályktun frá starfsmannafundi ákvörðun heilbrigðisráðherra um að leggja niður stofnunina í núverandi mynd og sameina reksturinn Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Í ályktuninni segir að ekkert samráð hafi verið haft við heima menn um þessi mál og telur starfsfólkið að þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið allt frá því að fyrst var ákveðið að sameina stofnanirnar á Sauðárkróki og Blönduósi s.l. vor verulega ámælisverð og bera vott um lítilsvirðingu gagnvart starfsfólki HS.
HS sé vel rekin stofnun sem fengið hefur gott orð á sig fyrir starfsemina hvort heldur litið er til faglegra sjónarmiða eða til árangurs í rekstri. Því sé það dapurleg ákvörðun ráðherra að flytja ákvarðanir um þjónustu og framtíð stofnunarinnar á Sjúkrahúsið á Akureyri (FSA).
Þá segir í ályktuninni; -Vitað er að FSA á í verulegum erfiðleikum með að ná endum saman rekstrarlega og því þykir okkur undarlegt að fela stjórnendum þeirrar stofnunar stærra hlutverk og ábyrgð á stærri og mun flóknari stofnun.
Við spyrjum hvort hugmyndin sé sú að draga úr þjónustu á Sauðárkróki til þess að stoppa upp í hallan á rekstri FSA? Liggja fyrir tillögur um á hvern hátt megi ná fram áætluðum sparnaði á sameinaðri stofnun? Hver er kostnaður við sameiningu þessara átta stofnana í eina? Er þessi aðgerð þjóðhagslega hagkvæm?
Sameiningin nær yfir stórt landssvæði og milli stofnana er um fjallvegi að fara. Því efumst við um að ná megi fram þeirri hagkvæmni sem boðuð er. Við teljum þvert á móti að kostnaður muni aukast og gæði þjónustu muni hraka stórlega. Öryggi sjúklinga muni einnig verða stefnt í voða.
Þá er eftir því tekið á stofnuninni hversu fáir þingmenn kjördæmisins hafa beitt sér til að stöðva þennan gjörning.
Skorum við á heilbrigðisráðherra að endurskoða þessi áform og tryggja að Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki fái að halda áfram því góða starfi sem hún hingað til hefur sinnt. Starfsfólk stofnunarinnar er tilbúið að leggja mikið á sig til að tryggja áfram þá góðu þjónustu sem hér er veitt.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.