Stærsti sigur Stólanna frá upphafi

logo_tindastollLeikur Tindastóls gegn Fsu í gærkvöldi verður skráður í sögubækurnar þar sem Stólarnir lönduðu sínum stærsta sigri frá upphafi í úrvalsdeild, 103 – 52, eða með 51 stigs mun skv. áreiðanlegum heimildum frá Rúnari Birgi Gíslasyni.

Fyrra metið var 41 stigs munur sem náðist 17. desember 1998 í leik á móti Þór Ak, 91-50. Í þeim leik léku tveir guttar sem aftur áttu hlut í sigri gærdagsins. Þetta eru þeir Helgi Freyr Margeirsson og Svavar Birgisson.

Feykir.is sendi póst á Karl Jónsson þjálfara Tindastóls af þessu tilefni:

Stærsti sigur Tindastóls í úrvalsdeild frá upphafi. Til hamingju með það.

Hvað var það sem skóp þennan sigur í gær? – Fyrst og fremst gott hugarfar leikmanna og ástæða til að hrósa þeim fyrir það. Þetta eru alltaf hættulegir leikir, liðum hættir til að vanmeta svona andstæðinga, en kollurinn á mínum mönnum var í lagi og því fór sem fór.

Má segja að liðið sé að toppa núna eða á það eftir að verða sterkara? – Nei við höfum alls ekki toppað ennþá. Við erum rétt að fá allan leikmannahópinn saman núna aftur eftir meiðsli, frí og fleira. Strákarnir eru í góðu formi og framundan gríðarlega mikilvægir leikir, sem við verðum vissulega að toppa í, en liðið á bara eftir að verða sterkara eftir því sem líður á tímabilið.

Má eiga von á frekari breytingum á liðinu eða er þetta hópurinn sem klárar veturinn? – Við þurfum ávallt að vera á tánum varðandi leikmannahópinn og ef við teljum að við getum styrkt hann með einhverju móti, þá gerum við það, innan skynsamlegra marka að sjálfsögðu.

Hvað gerið þið til að halda upp á þennan árangur? – Við ætlum ekkert að halda neitt sérstaklega upp á þennan árangur. Við höfum sett okkur ákveðin markmið fram að jólum og bíðum með öll fagnaðarlæti þangað til ljóst er hvort við náum þeim.

Eitthvað að lokum? – Þakkir til stuðningsmanna okkar sem hafa fjölmennt á heimaleiki sem útileiki. Það er okkur gríðarlega mikilvægt að fá þennan stuðning.

palli@feykir.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir