Sólskáli í smíðum á Löngumýri - „Ákaflega fallegt útsýni til austurs yfir í Blönduhlíðina“
Í mörg ár hefur staðarhöldurum og velunnurum Löngumýrar dreymt um að koma upp sólstofu í vannýttu skoti austan bygginga á Löngumýri. Nú er komin mynd á skálann, en framkvæmdir við hann hófust árið 2016. Stefnt er að því að taka skálann í notkun vorið 2024.
Fyrr í sumar spjallaði Feykir við Gunnar Rögnvaldsson, forstöðumann á Löngumýri, og forvitnaðist um framkvæmdina.
„Það eru nú allmörg ár síðan hugmyndin kviknaði, en hana átti sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup sem verið hefur formaður Löngumýrarnefndar um áratugaskeið. Vissulega höfðum við oftlega horft til svæðisins sem góðan stað fyrir viðbyggingu af einhverju tagi. Við síðustu framkvæmdir fyrir um tuttugu árum varð til skot sem afmarkast af gistiálmunni að sunnan, aðalbyggingunni að norðan og tengigangi að vestan. Af ganginum er ákaflega fallegt útsýni til austurs yfir í Blönduhlíðina. Skotið sem er rúmir 45 fermetrar vantaði því eiginlega bara austurhlið og þak.“
Framkvæmdir hófust árið 2016 þegar skipt var um jarðveg og steyptur sökkull í ársbyrjun 2017 eftir að Atli Gunnar Arnórsson hjá Stoð ehf. hafði teiknað upp hugmyndir að húsi. Síðan liðu þrjú ár þar til platan var steypt eða í júní 2020.
„Þá var nú meiningin að halda áfram en ýmislegt varð til þess að fyrst í mars á þessu ári var drifið í að panta gluggann sem er í raun öll austurhliðin, byggja yfir og ganga frá að utan en töluvert seinlegt var að tengja þetta við allar hinar byggingarnar. Stofan er því fokheld sem stendur og hugmyndin að nýta haustið og veturinn til að ljúka við svo hægt verði að taka hana í notkun vorið 2024 og þá verður vonandi líka kominn veglegur pallur við sem eykur notagildið enn frekar," segir Gunnar.
Hvernig eru framkvæmdirnar fjármagnaðar?
Það var strax ákveðið að við gerðum þetta á þeim hraða að ekki þyrfti að skuldsetja staðinn. Við vorum búin að nurla saman dálítilli upphæð yfir lengri tíma, bæði frá jöfnunarsjóði Þjóðkirkjunnar og út úr rekstrinum, sem vissulega þurfti að taka af í covidinu, en stærstu upphæðina fengum við frá Friðbirni í Fisk Seafood sem kom hingað og sá hvað var í gangi og bauð fram aðstoð sína, heilar þrjár milljónir sem sannarlega munaði um og hafi hann heila þökk fyrir. Eins hefur Steinullarverksmiðjan styrkt okkur með steinull í loft og þá veggi sem þarf að einangra. Verkfræðistofan Stoð styrkti okkur einnig með teikningum og annarri ráðgjöf, en þessi aðstoð er lýsandi fyrir þann velvilja sem staðurinn nýtur hér i samfélaginu
Hverjir hafa komið að framkvæmdinni?
Eins og fram kom er það Stoð ehf. sem sér um teikningar en að öðru leiti hefur Uppsteypa séð um framkvæmdir og utanumhald, þ.m.t undirverktaka. Núna erum við að reyna að dútla svolítið sjálf í byggingunni en vissulega er ekki mikill tími þegar mikið er umleikis á staðnum yfir sumarið. En góðir hlutir gerast hægt og viðmiðið er að næsta vor verði skálinn kominn í gagnið.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.