Sólon myndlistarfélag

Sólon myndlistarfélag var formlega stofnað af áhugalistamönnum frá Skagafirði og nágrenni í byrjun ársins 2011. Þá höfðu stofnfélagar þegar haldið saman tvær samsýningar í Sæluviku á Sauðárkróki, árin 2009 og 2010. Fyrsta sýningin, “Litbrigði Samfélags”, var verkefni Pálínu Óskar Hraundal, útskriftarnema í ferðamálafræði frá Hólaskóla, og fékk hún til hennar styrk frá Menningarráði Norðurlands Vestra en sú sýning markaði í raun upphaf samstarfs listamannanna í Sólon.

Styrkur frá Menningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga varð svo hvatning listamannanna til að stofna félagið og finna sér húsnæði undir starfsemina. Svo fór að félagið fékk afnot af húsinu Gúttó og nýtti drjúgan hluta styrksins til að standsetja húsið að innan en það hafði þá staðið autt í einhvern tíma. Gúttó er í eigu Sveitarfélagsins Skagafjarðar en það er eitt elsta og sögufrægasta hús á Sauðárkróki og hefur Sveitarfélagið nýlega lokið fyrsta áfanga í að gera húsið upp í upprunalegri mynd.

Félagar í Sólon vilja hér með koma á framfæri þakklæti til Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir ómetanlegan stuðning m.a. í húsnæðismálunum og fyrir almenna velvild í okkar garð.

Í Gúttó er vinnustofa listamanna, þar eru m.a. haldnir fundir félagsins, opnar vinnustofur og hin árlega samsýning listamanna í Sólon á Sæluviku, „Litbrigði samfélags“. Þá hafa félagar í Sólon tekið á móti bekkjum frá Árskóla á séropnanir Sæluvikusýningarinnar sé þess óskað og ýmsum öðrum hópum og einstaklingum þess á milli. Einnig hafa verið fengnir listamenn til að halda stutt námskeið fyrir félagsmenn. Auk þessa hefur Gúttó verið „lánað“ til tónleikahalds, viðburða og markaðar á Lummudögum m.a.

Listamenn í Sólon hafa verið fengnir til að halda námskeið fyrir börn í Sumar-Tím og listasmiðjur fyrir börn á Landsmóti hestamanna á Vindheimamelum og Unglingalandsmóti UMFÍ. Áhugi er fyrir að gera meira af slíku með mögulegri aukningu félagsmanna.

Félagar í Sólon eru 18 talsins þegar þetta er skrifað en allir eru velkomnir að sækja um inngöngu í félagið og óskum við hér með eftir nýjum félögum sem hafa gaman af að mála og teikna, hvort sem þeir eru lærðir eða leiknir, eða bara fólki sem hefur áhuga á að starfa með okkur að sýningum og viðburðum. Félagar í Sólon hafa verið á öllum aldri, frá 20-80 ára, karlar og konur, menntaðir myndlistarmenn og frístundamálarar og er markmiðið einfaldlega að hafa gaman saman, vinna að listinni og gefa af sér til samfélagsins.

Sólon hefur hingað til verið rekið með styrkjum frá Menningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga og félagsgjöldum auk þess sem félagið hefur einu sinni fengið styrk frá Menningarráði NV til sýningarinnar Litbrigði Samfélags og styrk frá Vaxtarsamningi NV til samstarfsverkefnis með Nes listamiðstöð og Fjölbrautarskóla NV sem miðaði í stuttu máli að því að auka samstarf milli listamanna, skóla og samfélagsins og auka vægi skapandi greina í landsfjórðungnum. Hlutverk Sólon í þessu samstarfi var að halda sýningar og viðburði fyrir listamenn frá Nesi listamiðstöð og voru haldnar margs konar listsýningar auk tveggja stuttmyndakvölda í Gúttó sem tókust með miklum ágætum. Þetta verkefni stækkaði tengslanet Sólon til muna og skilar sér eins og önnur menning og list í auglýsingu Skagafjarðar bæði innanlands og ekki síður út fyrir landsteinana. Með því að gúggla „Gúttó Sauðárkróki“ má meðal annars sjá þetta vel.

Sólon Myndlistarfélag tók nýverið við góðum styrk til áframhaldandi starfsemi félagsins frá Menningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga og viljum við hér með koma á framfæri kærum þökkum til Sjóðsins fyrir þann mikla stuðning og velvilja sem okkur hefur verið sýndur og gerir okkur kleyft að halda áfram okkar samstarfi.

Þeir sem vilja meiri upplýsingar um Sólon og/eða fylgjast með starfseminni geta fundið okkur á Fésbókinni sem “Sólon myndlistarfélag” en netsíða er ekki komin í loftið ennþá.

Nýir félagar mega gjarnan hafa samband við okkur á Fésbókinni eða hringja í Erlu Einarsdóttur í síma 6987937 eða Kristínu Björgu Ragnarsdóttur í síma 8642225. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir