Framtíð Söguseturs íslenska hestsins í mótun

Sögusetur íslenska hestsins. Mynd: Kristinn Hugason.
Sögusetur íslenska hestsins. Mynd: Kristinn Hugason.

Úthlutað hefur verið styrkjum úr Hvata, styrktarsjóði til verkefna á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðherra. Sögusetur íslenska hestsins á Hólum í Hjaltadal hlaut hæsta styrkinn, 3 milljónir króna en alls hlutu 19 verkefni styrk upp á samtals 19.880.000 kr.

„Hvati er nýr styrktarsjóður innan menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Styrkjum úr Hvata er úthlutað til ákveðinna verkefna á vegum félaga og samtaka til eins árs í senn. Verkefnin skulu ekki njóta lögbundins stuðnings eða falla undir sjóði eða sérstaka samninga. Þá eru hvorki veittir styrkir til nefndarsetu eða styrkir til BA/BS-, eða meistaraprófsverkefna,“ segir á vef Stjórnarráðsins.

Sögusetur íslenska hestsins var stofnað að Hólum í Hjaltadal 9. júní 2001 af Hestamiðstöð Íslands, Byggðasafni Skagfirðinga og Hólaskóla. Setrið var gert að sjálfseignarstofnun árið 2006 og eru stofnaðilar hennar Byggðasafn Skagfirðinga og Hólaskóli. Markmið Söguseturs íslenska hestsins er að vera alþjóðleg miðstöð þekkingar og fræðslu um íslenska hestinn og halda úti sýningarstarfi um hvaðeina sem lýtur að íslenska hestinum.

Stórt verkefni nýrrar stjórnar

Ný stjórn tók við í Júlí 2022 og var ljóst að stórt verkefni væri framundan. Rekstur Sögusetursins hefur verið þungur undanfarið og vegna þessa þá var ljóst að ekki væri hægt að opna setrið það sumar, og framtíðin óljós og var því birt frétt á vef setursins að setrið yrði lokað tímabundið.

Í nýrri stjórn Söguseturs íslenska hestsins ses eru þrír aðilar, Berglind Þorsteinsdóttir fyrir hönd Byggðasafn Skagfirðinga, Elisabeth Jansen fyrir hönd Háskólans á Hólum og Ragnar Helgason fyrir hönd Atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar Skagafjarðar, en Feykir hafði samband við þann síðastnefnda og forvitnaðist um framtíð setursins.

Ragnar segir að náðst hafi verið að hafa setrið opið í einn og hálfan mánuð í sumar og starfaði þar hjá þeim stelpa sem hafði mikinn áhuga á Sögusetrinu. „Hún var hérna í sex vikur að vinna hjá okkur og síðan vorum við (stjórn Sögusetursins) að hlaupa í störfin og erum búin að taka á móti tveimur hópum úr skemmtiferðaskipum. Svo erum við búin að vera að opna setrið þegar hópar hafa haft samband. Þannig það hefur ekki alveg verið lokað en við höfum reynt að gera okkar besta í að halda þessu gangandi,“ segir Ragnar.

Vilja stuðla að frekari uppbyggingu Hóla og sögusetursins

Unnin hefur verið stefnumörkunarskýrsla Sögusetursins og er næsta skref að ráða verkefnastjóra til að framfylgja þeirri skýrslu, leiða verkefnið og halda áfram frekari vinnu.

„Stjórn Sögusetursins fór og fékk flott ráðgjafafyrirtæki með okkur í lið til að útbúa stefnumörkun Sögusetursins. Þetta ráðgjafafyrirtæki heitir Sjá og hefur verið að taka út söfn og aðrar stofnanir og aðstoða þau í stefnumörkun. Að útbúa þessa skýrslu var mikil vinna, haldin var vinnustofa, stofnaður stýrihópur ásamt því að senda út skoðunarkannanir. Við erum í þéttu og góðu samstarfi við Háskólann á Hólum og vinnum við að því að styrkja stoðir skólans og setursins með samstarfi,“ segir Ragnar.

Þess má geta að Sögusetrið er líka hluti af verkefni sem ber vinnuheitið „Vinir Hóla" og fengum þau styrk til þess að byrja á að skipuleggja og teikna upp Hóla sem „áfangastaður fyrir ferðamenn“. Við höfum ráðið okkur verkefnastjóra til að stýra verkefninu Hólar - áfangastaður fyrir ferðamenn og erum að fara af stað með fyrsta áfangann þar og eru spennandi hlutir framundan.

Með því að búa til stefnumörkun fyrir sögusetrið, koma að uppbyggingu Hóla sem ferðamannastað ásamt því að vera í þéttu samstarfi við Hólaskóla, segir Ragnar þau vonast til að geta stuðlað að enn frekari uppbyggingu Hóla ásamt þróun og uppbyggingu setursins.

 

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir