Söfnun á lífrænum úrgangi frá landbúnaði | Einar E. Einarsson skrifar

Einar E. Einarsson.MYND AÐSEND
Einar E. Einarsson.MYND AÐSEND

Mig langar að setja á blað nokkur orð um þá þjónustu sem er í boði í Skagafirði á söfnun sjálfdauðra dýra frá búrekstri til að útskýra hvaða sjónarmið liggja að baki núverandi fyrirkomulagi og áformum um breytingar á því.

Fyrir allmörgum árum var byrjað að safna með skipulögðum hætti sjálfdauðum dýrum til sveita í Skagafirði og urða þau á viðurkenndum urðunarstað enda óheimilt að grafa slíkan úrgang á upprunastað.

Á meðan gamla sorpkerfið var enn við lýði var þessi þjónusta rekin með verulegu tapi af hálfu sveitarfélagsins en hún var þá innifalin í því fastagjaldi sem bændur borguðu vegna búreksturs. Með lagabreytingum sem urðu um áramótin 2022/2023 á lögum um úrgang, ásamt tilkomu úrvinnslugjalds og fleira, urðu miklar breytingar á þessu umhverfi, en skýrasta dæmið um það er t.d. lagaleg skylda til flokkunar úrgangs og tilkoma fjórtunnukerfisins. Við þessar lagabreytingar var líka ljóst að sveitarfélög mega ekki hagnast á umsetningu úrgangs né heldur greiða hann niður. Málaflokkurinn á að standa undir sér.

Nýtt innheimtukerfi 2023

Þann fyrsta janúar 2023 var tekið í gagnið nýtt innheimtukerfi á dýrahræjum sem byggðist á því að búfjáreigendur borguðu fast gjald á ásettan grip og áttu þannig allir sama rétt til þjónustu óháð staðsetningu í firðinum. Frá árinu 2023 hefur verið reynt að safna upplýsingum um uppruna, gerð og magn úrgangsins með það að markmiði að dreifa kostnaði milli búgreina á sem réttlátastan hátt.

Á árinu 2023 var í heild safnað 338 tonnum af dýrahræjum og var kostnaðurinn 17,1 m.kr. Ef við rýnum betur í þessar tölur þá var safnað frá janúar til september ásamt desember, að meðaltali tæplega 22 tonnum á mánuði. Í október og nóvember varð hins vegar veruleg aukning, en samtals var þá safnað 123 tonnum á tveimur mánuðum. Þessi aukning skýrist fyrst og fremst af öðrum lífrænum úrgangi sem kemur inn á þessum árstíma og er að mestu úrgangur frá heimaslátrun, kjötvinnslu, gæsaúrgangi o.fl. sem fólk þarf að losna við. Það sem af er ári 2024 hefur safnað magn pr. mánuð verið að meðaltali heldur hærra eða rúmlega 25 tonn, en endanlegt uppgjör fyrir árið liggur ekki fyrir.

Áætluð innkoma af álagninu á búfjáreigendur samkvæmt gjaldskrá 2024 er 15,3 m.kr.

Á fundi landbúnaðar- og innviðanefndar Skagafjarðar, þann 17. október sl., voru þessi mál sem oftar til umræðu og var þá samþykkt ný gjaldskrá vegna ársins 2025. Við ákvörðun hennar var meðal annars horft til þeirra upplýsinga sem við höfum um tegund úrgangs, magn, og rekstur málaflokksins. Með hliðsjón af fyrirliggjandi skráningu á því sem safnað hefur verið, á búfjártegundir og áætlaðri skiptingu á því sem ekki er skráð, má áætla að um 60% heildarmagnsins sé frá mjólkurframleiðendum og nautgripabændum, 20% frá sauðfjárbændum og 20% frá hrossaeigendum. Með hliðsjón af þessu og áætluðum rekstrarkostnaði 2025 var ný gjaldskrá samþykkt. Jafnframt var ákveðið að láta apríl, september og október fylgja vetrarmánuðum þ.e.a.s. tvær ferðir hræbíls í mánuði í staðinn fyrir vikulega eins og verið hefur þessa mánuði. Einnig var samþykkt að taka harðar á þessu mikla magni úrgangs (sláturúrgangur, gæsir, fiskúrgangur o.fl.) sem er að koma inn og tengist ekki bústærð eða búrekstri þeirra sem greiða fyrir þjónustuna. Rétt er að hafa í huga að í gildandi reglum er ekki gert ráð fyrir að bændur skili af sér slátuúrgangi eða álíka úrgangi í miklu magni. Þeir aðilar sem hafa þurft að losa sig við slíkan úrgang hafa átt að koma honum sjálfir í viðurkenndan farveg á eigin kostnað, með því t.d. að leigja beint gám af Íslenska gámafélaginu eða koma úrganginum á móttökustöð þar sem tekið er við honum gegn greiðslu.

Að lokum

Í umræðum síðustu daga heyri ég ólík sjónarmið meðal bænda um hvað sé rétt að gera og þá með hvaða hætti eigi að bjóða þessa þjónustu. Af hálfu sveitarfélagsins er engin fyrirstaða í að vera milliliður um að koma á söfnun á öðru en dýrahræjum, en viðhorfið hingað til er að það sé ekki sanngjarnt að leggja þann kostnað beint á búfjáreigendur, en þessi rúmlega 70 tonn sem við áætlum að hafi verið „annað“ kostuðu ca 3,6 m.kr. árið 2023. Markmiðið með að taka harðar á þessu núna er því fyrst og fremst að halda niðri kostnaði fyrir hinn almenna búfjáreigenda og tryggja áfram góða þjónustu og lágmarkskostnað við söfnun á sjálfdauðum dýrum.

Ég fagna því allri þeirri umræðu sem er um þessi mál núna, en ef það er vilji bænda að söfnun á öðrum lífrænum úrgangi verði í boði með hræbílnum þá má mögulega finna leið til þess, í samstarfi við Íslenska gámafélagið. Það getur hins vegar ekki talist sanngjarnt að allt þetta viðbótarmagn úrgangs greiðist eftir bústærð því uppruninn er oftast ekki í neinu samhengi við bústærð viðkomandi.

Einar E. Einarsson,
formaður landbúnaðar og innviðanefndar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir