Skínandi Ferguson bætist í safnið hjá Simma
Það blundar söfnunarárátta í mörgum og á meðan sumir safna pennum og frímerkjum þá safna aðrir búvélum og gömlum dráttarvélum til að gera upp og varðveita. Einn að þeim síðarnefndu er Sigmar landpóstur Jóhannsson í Lindabæ, en undanfarinn áratug hefur hann sankað að sér fjölda gamalla véla og tækja og lagt í mikinn tilkostnað við lagfæringar og varðveislu þessara búminja.
Nú á dögunum var einn dýrgripurinn úskrifaður frá völundinum Jóni Gíslasyni í Miðhúsum, en hann hefur lagt gjörfa hönd á margar vélar sem þurft hafa andlitslyftingar við. Hér er um að ræða Ferguson árgerð 1957 frá Daðastöðum í Reykjadal, en hún er ein af rúmlega 50 dráttarvélum sem Simmi á og margar þeirra eru gangfærar og komnar með upprunalegt útlit. Á íslenska safnadaginn 11. júlí nk. fyrirhugar Simmi að aka hópakstur á gömlu vélunum ásamt félögum sínum og þar verða þær til sýnis fyrir gesti safnsins.
/Myndir og texti: Gunnar Rögnvaldsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.