Skilaverð til bænda hækkar hjá SKVH
Sláturhús KVH á Hvammstanga hefur gefið upp að ekki verður greitt sérstaklega fyrir kjöt til útflutnings í haust og því verður eitt verð fyrir allt innlagt kjöt.
Þetta kemur bændum til góða því útflutningsverð hefur iðulega verið lægra en kjöt sem ætlað er á innanlandsmarkað og áætlar SKVH að skilaverð til bænda hækki um rúmlega 9% milli ára.
SKVH ætlar að greiða 200 kr/kg aukaálag á fituflokka 4 og 5, sem eru mjög feitir skrokkar en gott verð fæst fyrir slíkt kjöt á mörkuðum í Japan. Gildir þetta álag til 16. október. Með þessum álgasgreiðslum mun verð til bænda hækka um rúmlega 11% miðað við innlegg frá fyrra ári.
Rekstur sláturhússins gekk vel síðasta starfsár en samkvæmt rekstrartölum síðasta árs var velta félagsins 1.179,3 millj. kr. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði var 86,7 millj. kr. samanborið við 35.4 millj. kr. árið 2007. Þegar fjármagnsliður eru teknir með var tap félagsins 67,2 millj. kr. samanborðið við 17,3 millj. kr. hagnað árið 2007 og má einkum rekja það til gengishækkunar lána. Veltufé til rekstrar var 89,6 millj. kr. samanborðið við 42,2 millj. kr. árið 2007.
Hefðbundin sláturtíð hefst mánudaginn 14. september n.k.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.