Skemmtileg Sódóma

sodomaNemendafélag FNV frumsýndi leikritið Sódómu eftir Felix Bergsson á Sal Bóknámshússins í gærkvöldi. Margt var um manninn bæði í salnum sem og á sviðinu.

Sýningin stóð vel undir væntingum og meira en það. Leikarar eru mjög góðir og valda sínum hlutverkum með ágætum og allir aðalleikarar ná að halda góðu tempói í sýningunni. Það er varla hægt að draga einn leikara fram fremur en annan en samt langar mig að minnast á persónuna Guggu sem var Brjánsi í kvikmyndinni. Ekki veit ég hvort Gugga sé í handriti Felix eða hvort leikstjórarnir hafi breytt Brjánsa í trukkalessuna Guggu í þessari uppsetningu, en hvort sem er þá er hún óborganleg persóna og vel leikin.

Hvernig setur maður bíómynd á svið? Þessari spurningu skaust upp í huga mér áður en ég hélt á sýningu. Ég sá myndina fyrir mörgum árum og man að sögusvið hennar var um allan Reykjarvíkurbæ og hugsaði hvernig þetta yrði leyst. Leikmynd leikritsins Sódómu var eins einföld og hægt er að hafa í leikriti án þess að það komi niður á sýningunni og í raun skemmtilegt að sjá hvað hún virkaði vel í samspili ljósa og reykvélar. Nokkur atriðin voru tekin upp á myndband og varpað á sýningartjald og voru það nokkrar útisenur. Þetta féll vel að sýningunni og tókst vel í alla staði. Notast var við lifandi tónlistarflutning sem gerir sýninguna enn skemmtilegri en ella og frábærir tónlistarmenn á ferðinni.

Leikstjórarnir Stefán Friðrik Friðriksson og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir hafa náð að gera skemmtilega sýningu úr Sódómu enda með góðan efnivið leikara, tónlistarmanna og að sjálfsögðu þeirra sem ekki sjást á sviði en í raun eiga stóran hlut í að skapa leikritið. Það eru allir þeir sem vinna á bakvið og þeir sem hafa lagt mikla vinnu í undirbúning og umgjörð sýningarinnar. Ég get óhikað hvatt alla til að mæta á sýningu NFNV og skemmta sér eina kvöldstund.

E.s. Einhversstaðar var varað við ógætilegum munnsöfnuði í leikritinu og gott að hafa það í huga áður en farið er á sýningu. Annars tók ég 7 ára gamla dóttur mína með sem fannst leikritið frábært og hún veit að þennan munnsöfnuð má hún ekki hafa eftir.

palli@feykir.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir