Skagfirðingur í körfuboltalandsliðinu
Nú er ljóst að enginn Stólamaður fer með íslenska karlalandsliðinu í körfubolta er það mætir Búlgaríu og Finnlandi ytra dagana 29. júní og 2. júlí í undankeppni HM(World Cup). Pétur Rúnar Birgisson var í 15 manna æfingahópi en var kroppaður burt í lokaniðurskurði ásamt Kristni Pálssyni og Jóni Arnóri Stefánssyni. Einn Skagfirðingur er þó í liðinu.
Á Karfan.is segir að Ísland sé í ágætri stöðu í riðlinum en liðið situr í 2.-3. sæti ásamt Finnum með tvo sigra og tvö töp. Þrjú efstu lið riðilsins fara áfram í milliriðla og sameinast riðill Íslands E-riðli en þar eru Rússland, Frakkland og Bosnía í þremur efstu sætunum.
Á mánudaginn var tólf manna hópur landsliðsins kynntur og var Breki Gylfason valinn í fyrsta skiptið í A- landsliðshópinn. Breki er Skagfirðingur í móðurættina, sonur Ingibjargar Friðriksdóttur, Imbó í Glæsibæ, og Gylfa Geirssonar.
Breki er uppalin hjá Breiðabliki en lék með Haukum tvö síðustu tímabil. Nú hins vegar er hann á leið til Bandaríkjanna þar sem hann mun hefja nám og leika með liði Appalachian State háskólans.
Appalachian State er í North Carolina og leikur í efstu deild í háskólaboltanum og í „Sun Belt“ deildinni. Samkvæmt Karfan.is vann liðið 15 leiki og tapaði 18 á nýliðinni leiktíð en tvisvar í sögunni hefur liðið farið í mars fárið.
Feykir óskar Breka góðs gengis í landsliðinu sem og í baráttunni í Ameríkuhreppi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.