Skagfirðingar slógu öðru sinni í gegn í Borgarfirði

Fjölmargir glaðbeittir brottfluttir skagfirskir verðlaunahafar í Borgarnesi. Mynd: BJB

Hið árlega golfmót burtfluttra Skagfirðinga, er heitir einfaldlega Skagfirðingamótið, fór fram í miklu blíðskaparveðri á laugardaginn í Borgarnesi. Mótið hefur verið haldið í meira en tíu ár sunnan heiða, og fór fram annað árið í röð í Borgarnesi. Yfir 80 kylfingar mættu til leiks, þar af um 20 að norðan, og komust færri að en vildu, slík er aðsóknin orðin í mótið.

Skal engan undra þar sem verðlaun eru jafnan glæsileg, hver einasti keppandi kemur heim með verðlaun - bara mismikil eftir því hve árangurinn hefur verið á golfvellinum og heppnin í úrdrætti á skorkortum!

Fyrir Skagfirðinga á höfuðborgarsvæðinu lofaði dagurinn góðu því á skiltum Vegagerðarinnar í Mosfellsbæ stóð LOGN undir Hafnarfjalli. Þegar á leiðarenda kom árla morguns var reyndar kuldatrekkur að norðan, en það breyttist fljótt í stafalogn og hita. Varla hægt að spila golf við betri aðstæður á þessum árstíma og völlurinn aldeilis frábær.

Langbesta skor dagsins, á 73 höggum, eða tveimur höggum yfir pari vallarins, átti Halldór Heiðar Halldórsson. Næstu menn voru á 80 höggum. En Skagfirðingamótið er punktakeppni og aðalverðlaunin, farandbikar, fær sá er flestum punktum nær. Það gerði Arnar Snær Kárson Maríssonar, með 41 punkt. Í næstu tveimur sætum í flokki karla komu Kristján Grétar Kristjánsson Skarphéðinssonar, með 39 punkta, og Guðbjartur Haraldsson Guðbergssonar með 38 punkta. Verðlaun voru það glæsileg að þau náðu yfir 10 efstu sætin í karla- og kvennaflokki. Geri önnur stórmót betur!

Punktahæst meðal kvenna var Sólrún Steindórsdóttir, með 37 punkta. Í öðru sæti var Kristín Inga Þrastardóttir (tengdadóttir Kára Valla) með 36 punkta og Hjördís Kristinsdóttir (kona Þórðar Hilmarssonar fv Steinullarforstjóra) varð í 3. sæti með 34 punkta.

Hjón eða pör hafa verið að auka þáttöku sína á Skagfirðingamótinu, nú kepptu alls 18 pör og flestu punkta hlutu heiðurshjónin Gunnar Þ. Guðjónsson (Gunni bakari) mótsnefndarmaður og Sólrún Steindórs, sem borið hafa hitann og þungann að undirbúningi mótsins. Samanlagt voru þau með 69 punkta. Næst þeim komu Björn Sigurðsson og Ingibjörg Guðjónsdóttir með 65 punkta.

Margs konar aukaverðlaun voru veitt, eins og fyrir næst holu og lengstu högg. Keppendur voru sumsstaðar í ham, þannig var Kristín Inga Þrastardóttir aðeins 15 cm frá holunni á 16. braut, sem er ein erfiðasta braut vallarins. Arnar Kárason var 42 cm frá holu á 2. braut, svo dæmi séu tekin. Önnur nándarverðlaun fengu Þorsteinn Þórsson, Kári Arnar Kárason, Svanborg Guðjónsdóttir, Sigurjón Hávarsson og Kristján Blöndal. Lengstu högg á 18. braut áttu Elsa Björk Péturssdóttir og Elías Þór Grönvold.

Styrktaraðilar voru fjölmargir að vanda, allt frá einstaklingum til risafyrirtækja,  og vill mótsstjórn koma á framfæri kæru þakklæti til þeirra allra fyrir stuðninginn:

Flugfélag Íslands, Hótel Hamar, Alcan í Straumsvík, Icelandair, Reebook umboðið, Nike-umboðið, Golfbúðin Hafnarfirði, Hole in One, Sjöfn Sigfúsdóttir, Steinullarverksmiðjan, Orkuveita Reykjavíkur, Nói-Síríus, Kaupfélag Skagfirðinga, Sauðárkróksbakarí, Fjarðarbakarí, Reynir bakari, Passion Bakarí, Smith og Norland, Íslenska auglýsingastofan, Morgunblaðið, Steypustöðin, Veiðibúðin, Vífilfell, Vírnet Borgarnesi, Ömmubakstur, Fiskkaup, HH Trésmiðir, Íslenska umboðssalan, Nafir fasteignafélag, Lýsing og Málarasmiðjan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir