Skagfirðingar sem búa í Grindavík - Ellert H. Jóhannsson og Aníta Björk Sveinsdóttir
Einn af Skagfirðingunum sem búa í Grindavík er Ellert H. Jóhannsson, sonur Jóhanns Friðrikssonar og Sigríðar Sigurðardóttur, og konan hans, Aníta Björk Sveinsdóttir, en þau hafa búið þar síðan um áramótin 2008/2009. Aníta er fædd og uppalin í Grindavík og býr öll fjölskyldan hennar þar. Ellert og Aníta eiga saman fjögur börn; Jóhann Friðrik, Bergsvein, Helenu Rós, Ellert Orra og ekki má gleyma Simba og Húgó, hundunum á heimilinu.
Hvernig líður ykkur? ,,Okkur líður bara mjög sérkennilega, tilfinningar upp og niður. Aðallega óvissan sem er erfiðust.“
Var auðvelt fyrir ykkur að finna samastað eftir að rýming hófs, voru þið farin áður en bærinn var rýmdur? „Já, við vorum alveg einstaklega heppin. Selma Barðdal hringdi strax á laugardagsmorgni og bauð okkur íbúðina sína sem hún og Róbert eiga í Kópavogi. Fyrir það erum við þeim óendanlega þakklát. Það er gott að koma úr Skagafirði, Skagfirðingar standa saman. Ég var úti á sjó og missti þar af leiðandi af djöfulganginum og Aníta og Helena voru í Berlín og komu heim á sunnudeginum. Jóhann og Júlía, kærastan hans, fóru erlendis á föstudaginn en Ellert Orri var heima hjá tengdaforeldrum mínum. Þegar einn stór skjálfti kom voru þau að elda sér pizzu og það hrundi mikið úr skápum og út úr ísskápnum líka. Þeim stóð ekki á sama og sendu Ellert Orra, sem er 8 ára, út í bíl með hundinn og skólatöskuna sína og þau ákváðu að fara í skjálftafrí í bæinn. Bergsveinn, næst elsti strákurinn minn, var farinn í Vatnaskóg með Unglingadeild Björgunarsveitarinnar í Grindavík en þau voru svo kölluð heim til að rýma bæinn. Hann kíkti svo við heima, lokaði öllum gluggum og tók flest tæki úr sambandi.“
Hafið þið fengið að fara aftur heim til að sækja eitthvert dót? „Aníta fór í morgun, mánudaginn 13. nóvember, af stað til Grindavíkur því það var gefið út leyfi til að fara á heimili Jóhanns og Júlíu til að sækja bílinn þeirra og eitthvert smá dót því þau eru ennþá úti. Þegar hún var komin til Grindavíkur komið í ljós að
hún mætti einnig fara heim til okkar. Við vorum búin að undirbúa okkur og hún var með lista af hlutum sem við vildum bjarga og skipta okkur máli þar sem við gerðum ráð fyrir að við myndum ekki hafa langan tíma. Eftir allan þennan hamagang hringir Aníta í mig þegar hún er að fara að leggja af stað frá Grindavík því þá kom sjokkið hjá henni, þegar hún horfði á allt fólkið hlaupa inn og út úr húsunum sínum í panikki, þá brutust tilfinningarnar út. Mér fannst virkilega erfitt að heyra í henni þarna.
Var mikið tjón heima hjá ykkur áður en þið yfirgáfuð heimilið? „Bergsveinn fór yfir húsið áður en hann fór úr bænum og það leit bara furðu vel út. Einhverjir hlutir brotnir en ekkert stórvægilegt þannig séð. Þegar Aníta fór að sækja dót var eitthvað af skúffum og skápum opið en ekkert dottið út úr þeim. En svo á bara eftir að koma í ljós hvort það séu einhverjar skemmdir á sjálfu húsinu. Aníta var meira að einbeita sér að því að taka saman dót sem okkur vantaði.“
Hvernig er staðan næstu vikur hvað varðar skóla og vinnu. Vitið þið eitthvað, er hægt að gera einhver plön í svona mikilli óvissu? „Ég er á sjó og verð heima til 1. desember en við erum náttúrulega með gistiheimili og Aníta hefur verið að sinna því ásamt því að vera nudda, er með aðstöðu á neðri hæðinni. Bergsveinn er í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og fer vonandi í skólann á miðvikudaginn. En eins og ég sagði áður þá er hann í Björgunarsveitinni og er til taks fyrir þá ef hann er kallaður út. Jóhann og Júlía koma ekki heim fyrr en 26. nóvember og þau vissu ekki mikið í dag þegar við heyrðum í þeim hvert framhaldið þeirra væri nema að þau langar heim í Skagafjörðinn. Helena Rós og Ellert Orri hafa verið að meðtaka þetta hægt og rólega, alls konar tilfinngingar að koma upp hjá þeim. Þannig að við viljum hlúa vel að þeim, sérstaklega núna, og ætlum að bíða með að fara með þau í einhvern skóla. Það er því ekki hægt að gera nein plön. Við erum bara að meðtaka ástandið.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.