Skagfirðingar með sín ferðamál í öflugum farvegi
Rannsóknarmiðstöð ferðamála hefur nú sent frá sér skýrslu um rannsókn á svæðisbundnu markaðsstarfi og þeim ólíku aðferðum, leiðum og hugmyndafræði sem beitt er víðs vegar um landið í markaðsstarfi. Höfundar skýrslunnar eru þau Guðrún Þóra Gunnarsdóttir deildarstjóri við Háskólann á Hólum og Edward Huijbens forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála.
Rannsóknin var unnin að undirlagi Ferðamálastofu sem vildi skoða hvernig svæðisbundnu markaðsstarfi væri háttað og hvernig stilla mætti strengi þeirra ólíku þátta sem falla undir ferðaþjónustu á einu svæði. Leitast var við að svara þeim spurningum í rannsókninni, hvernig hlutverki, starfsemi og uppbyggingu markaðsstofa um landið væri háttað og hverjir kæmu að mótun svæðisbundinnar markaðssetningar og með hvaða hætti.
Hvað Norðurland vestra varðar komast höfundar að því að svo virðist sem Skagfirðingar hafi komið sínum ferðamálum í öflugri farveg heldur en nágrannar þeirra í Húnavatnssýslum en Húnvetningar séu að skilgreina sína ferðavöru og sérstöðu. Ferðaþjónustan í Skagafirði vinnur í dag eftir stefnumótun sem gerð var 2005 og þar hafi ákveðin sýn verið skilgreind.
Landshlutaupplýsingamiðstöð er í Varmahlíð en svæðisbundnar upplýsingamiðstöðvar í Staðarskála, á Hvammstanga og á Blönduósi. Þá er talað um að upplýsingaathvörf, eins og það er nefnt í skýrslunni, séu víðar. Svæðinu er yfirleitt skipt í Húnavatnssýslur og Skagafjörð en það megi segja að svæðinu sé þrískipt eftir gömlu sýslumörkunum í Húnaþing vestra, Austur-Húnavatnssýslu og Skagafjörð, segir í skýrslunni.
Ferðamálasamtök Norðurlands vestra eru starfrækt á svæðinu og einstök ferðamálafélög starfa í Skagafirði og Húnaþingi vestra bæklingaútgáfa og kynningarmál hafa verið í höndum þessara samtaka og félaga en eins og kemur fram í skýrslunni þá eru þau mál nú fyrst og fremst í höndum Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi sem rekin er af ferðamálasamtökum Norðurlands eystra og –vestra með fulltingi sveitarfélaga á svæðinu. Sveitarfélög og ferðamálafélögin á svæðinu gefa þó áfram út sitt kynningarefni. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra koma einnig að stoðkerfi ferðaþjónustunnar á svæðinu í gegn um atvinnuráðgjafanet sitt.
Þá segir í skýrslunni að Norðurland vestra sé kynnt í gegn um Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurland, en einnig á vefsíðu Ferðamálasamtaka Norðurlands vestra www.northwest.is. Sveitarfélagið Skagafjörður er síðan með eigin ferðakynningarsíðu www.visitskagafjordur.is sem verið er að uppfæra og færa í nýjan búning.
Í niðurstöðum skýrsluhöfunda kemur fram að engum dyljist að markaðssetning landshluta og þar með landsins alls skorti heildarsýn og að margir komi að málum hver á sinn hátt. Helstu tillögur skýrsluhöfunda eru þessar:
· Markaðssetning landsins verði í gegn um sameiginlega vefgátt.
· Að fjórar markaðsskrifstofur starfi, ein í hverjum fjórðungi.
· Landshlutaupplýsingamiðstöðvar verði sameinaðar markaðsstofum landsfjórðunga og hver þeirra starfi sem deild innan sinnar stofu.
· Skilgreindur verði samstarfsvettvangur grasrótar og markaðsstofa á forsendum og að frumkvæði atvinnuþróunarfélaga.
Guðrún Þóra Gunnarsdóttir deildarstjóri Ferðamáladeildar við Háskólann á Hólum, annar höfunda skýrslunnar, segir að staðan á kynningar- og markaðsmálum ferðaþjónustunnar á Norðvestursvæðinu sé að mörgu leyti svipuð og í öðrum landshlutum. Hún segir að á svæðinu séu öflug grasrótarsamtök sem taki æ virkari þátt í vöruþróun og nýsköpun í ferðaþjónustu með skilgreindum samstarfsverkefnum. –Það skiptir einnig miklu máli að í héraði sé góður farvegur fyrir vinnu af þessu tagi. SSNV atvinnuþróun hefur komið markvisst að stuðningi við ferðaþjónustufyrirtæki bæði með ráðgjöf og þátttöku í þróunarverkefnum en aðkoma atvinnuþróunarfélaga að málefnum ferðaþjónustunnar er nokkuð mismunandi eftir landshlutum, segir Guðrún.
Hvað mikilvægar úrbætur á svæðinu segir Guðrún að ein helsta forsenda þeirra sé skýr stefnumótun um ímynd og uppbyggingu. – Aukin vöruþróun og fagmennska slíkrar stefnu, er lykilatriði þess að svæðið verði sýnilegra og meira áberandi á markaðnum. Hún segir Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi hafa styrkst mjög á undanförnum árum. – En forsenda þess að hún sé farvegur markvissrar kynningar á landshlutanum er að til staðar séu vel ígrundaðar vörur og fjölbreytt ferðaframboð. Guðrún segir að margt jákvætt sé að gerast í þeim efnum á Norðvesturlandi en það sé ekki nóg að vörurnar séu til staðar því aðgengi og upplýsingar þurfi líka að vera í góðu lagi og að þar sé víða pottur brotinn. – Menntun er mikilvæg undirstaða framfara í ferðaþjónustu, segir Guðrún að lokum og segir það ánægjulegt að sívaxandi fjöldi fólks af Norðurlandi vestra stundi nú nám við ferðamáladeild Háskólans á Hólum annað hvort í fjarnámi eða staðnámi.
Þess má geta að lokum að bæði er boðið upp á diploma- og BA nám í ferðamálafræði sem og diplomanám í viðburðastjórnun á Hólum og er ástæða til að hvetja alla áhugasama að skoða málið betur á heimasíðu háskólans www.holar.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.