Skagfirðingar í WipeOut

Finnur og Silja á góðri stund í Argentínu

Nú í kvöld sýnir Stöð 2 fyrsta þáttinn í hinni geysivinsælu þáttaröð WipeOut þar sem þekktir og óþekktir Íslendingar reyna með sér í heldur óvenjulegum þrautum. Keppnin fór fram í Argentínu og eiga Skagfirðingar nokkra þátttakendur og þar á meðal þrjár frænkur sem rekja ættir sínar til Ellerts og Ingibjargar í Holtsmúla.

Ein af þeim er Silja Rut Sigurfinnsdóttir, Sigurjónssonar og Valgerðar Friðriksdóttur en þau feðgin Silja og Finnur tóku þátt og segir Silja það hafa verið hálfpartinn gert í bríaríi en hún er  mjög sátt við árangur sinn þrátt fyrir að keppnin hafi verið mjög erfið.

 Hvað getur þú sagt okkur um þáttinn í kvöld?

Ég get lofað ykkur frábærri skemmtun yfir þættinum í kvöld. Það var einmitt forsýning á þættinum fyrir þátttakendur og aðstandendur þáttanna í Smárabíói í vikunni og öskraði salurinn hreinlega af hlátri. Í hverjum þætti eru tveir þekktir einstaklingar og í þættinum í kvöld eru það Haffi Haff og Hildur Hara-systir. Haffi Haff er náttúrlega frábær karakter og fer á kostum í þættinum.

Nú eru nokkrir Skagfirðingar í þættinum. Er eitthvað yfir þeim að kvarta?

Nei, ég hef ekki yfir neinu að kvarta, enda aðeins toppfólk sem Skagafjörðurinn elur af sér. Við vorum nokkrir Skagfirðingarnir en auk okkar pabba voru Auðunn Blöndal og frænkur mínar tvær, Sandra Ellertsdóttir, Sigurðar Ellertssonar í Holtsmúla og Sigurlína Guðjónsdóttir, dóttir Hönnu Svavars Ellertssonar í Holtsmúla, en við erum allar fjórmenningar ættaðar frá Holtsmúla en móðuramma mín er Alda Ellertsdóttir frá Holtsmúla. Við áttuðum okkur reyndar ekki á því strax en það var gaman að hittast svona óvænt við þessar óvenjulegu aðstæður.

Þá er bara að setjast fyrir framan imbann og sjá hvernig frænkunum gengur.

palli@feykir.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir