Skagfirðingar hvorki svartsýnir né bjartsýnir fyrir Útsvars-kvöldið
Í kvöld eigast við lið Fljótsdalshéraðs og Skagafjarðar í átta liða úrslitum hins hingað til ágæta spurningaþáttar Útsvars í Sjónvarpi allra landsmanna. Eins og er í tísku hjá öllum ábyrgum aðilum þessa dagana eru Skagfirðingar hvorki svartsýnir né bjartsýnir fyrir viðureign kvöldsins, enda við ramman reip að draga þar sem lið Fljótsdalshéraðs stendur vörnina.
Liði Skagafjarðar er þó ekki alls varnað eins og hefur sýnt sig hingað til. Eftir gjafsókn í fyrstu umferð gegn Hornfirðingum héldu hinir spakvitru Skagfirðingar ró sinni á lokasekúndum endurtekins bardaga við Hornfirðinga og sigruðu af fádæma öryggi með einu stigi, 90-89. Illar tungur hefðu kannski kallað það heppnissigur en látum það liggja milli hluta.
Því er það lið Skagafjarðar sem fær að glíma við Fljótsdælinga í kvöld í þriðju umferð Útsvars og hefjast herlegheitin kl. 20:05. Koma svo Kristján, Inga María og Ólafur!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.