Skagfirðingar hæstánægðir í Sveitarfélaginu Skagafirði
Á heimasíðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar má lesa að níu af hverjum tíu Skagfirðingum eru ánægðir með að búa í Skagafirði og næstum 8 af hverjum 10 segjast ánægðir með lífsgæði í sveitarfélaginu. Athygli vekur að íbúar eru ánægðari með lífsgæði almennt í sveitarfélaginu núna í miðri efnahagslægð, en þeir voru árið 2005 þegar góðæri var hérlendis.
Þessar niðurstöður komu fram í viðamikilli könnun sem Capacent Gallup vann fyrir sveitarfélagið þar sem viðhorf íbúa til þjónustu sveitarfélagsins og búsetu var kannað.
Íbúarnir eru almennt mjög ánægðir með þjónustu sveitarfélagsins svo sem þjónustu við barnafjölskyldur, þó að einstaka þætti í þjónustunni þurfi að laga.
Úrtak var 1200 manns og var könnunin að mestu framkvæmd á netinu. Spurningar í könnuninni snúast fyrst og fremst um þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir íbúum sínum en til að fá gleggri mynd af viðhorfum íbúa Skagafjarðar til búsetu þar var einnig spurt út í aðra þætti svo sem þjónustu lögreglu, heilbrigðisstofnunar og fjölbrautaskóla, auk spurninga um atvinnu-, menningar- og félagslíf.
Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að helstu niðurstöður séu þær að heildaránægja fólks með að búa í Sveitarfélaginu Skagafirði er ennþá mikil og hún hefur heldur aukist frá árinu 2005 þegar sambærileg könnun var gerð. Nú segjast 89% vera ánægð með að búa í Skagafirði á heildina litið en einungis 3% eru óánægð með að búa í sveitarfélaginu.
Allar niðurstöður könnunarinnar má nálgast á þessari slóð:
http://www.skagafjordur.is/upload/files/4018675_Skagafjordur_090709.pdf
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.