Skagfirðingar ánægðastir með lögregluna

 

Stefán Vagn Stefánson er að vonum ánægður með útkomuna í könnun Gallup.

Íbúar í Skagafirði eru ánægðastir allra með löggæslu í sínu umdæmi samkvæmt nýrri könnun sem Capacent Gallup vann fyrir sveitarfélagið Skagafjörð og birt var í gær.

 

 

Í könnuninni voru íbúar spurðir út í hina ýmsu þjónustuliði innan sveitarfélagsins og meðal annars um þjónustu lögreglunnar við íbúa. Ef horft er yfir landið og á önnur sveitarfélög þar sem sambærilegar kannanir hafa verið gerðar má sjá að Skagfirðingar eru ánægðastir allra hér á landi með þjónustu lögreglunnar. Ef rýnt er í tölurnar má sjá að 70.8% íbúa eru ánægð með störf lögreglu. 16,9 % eru hvorki né og 12,3 % eru óánægð. Á svokölluðum ánægjuskala er landsmeðaltal lögreglunnar 3,2 eða sama tala og lögreglan hér fékk árið 2005. Í könnuninni sem birt var í gær er tala lögreglunnar á Sauðárkróki hins vegar orðin 3,8 og er ánægja íbúa hér því töluvert yfir landsmeðaltali og sú hæsta á landinu.

 

 –Þetta er mikið stökk uppávið frá síðustu könnun sem er mjög ánægjulegt fyrir okkur sem hjá embættinu störfum, segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki. –Við fórum markvisst í þá vinnu að bæta samskipti við íbúa og um leið bæta ímynd lögreglunnar á Sauðárkróki og er þessi niðurstaða staðfesting á því að við erum á réttri leið með þá vinnu, bætir Stefán við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir