Skagaströnd án aukaframlags úr jöfnunarsjóði

Frá Skagaströnd

Sveitarstjórn Skagastrandar mótmælir þeirri aðferðarfræði sem beitt var við úthlutun á 1.000 m.kr. aukaframlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Í bréfi Jöfnunarsjóðs til sveitarfélagsins um áætlun aukaframlags 2009 sem lagt var fram á fundi sveitarstjórnar í dag kemur fram að Skagaströnd fær ekkert aukaframlag á árinu þar sem framlög vegna íbúaþróunar, þróunar heildartekna og lágra meðaltekna séu skert sem nemur 5% af jákvæðri peningalegri stöðu sveitarfélagsins samanber ársreikning 2008.

 

Í bókun sveitarstjórnarfundar í dag segir að með úthlutuninni sé tekin ákvörðun um að ganga gegn hagsmunum sveitarfélags eins og Skagastrandar sem hafi þurft að glíma við fólksfækkun og erfiðleika í atvinnulífi undanfarna áratugi. Sveitarstjórn mótmælir því að þeir sem hafi reynt að standa með ábyrgum hætti að rekstri sínum í erfiðu umhverfi þurfi að takast á við þá niðurstöðu sem felist í úthlutun aukaframlagsins. Með þessari úthlutun sé á engan hátt gerð tilraun til að meta stöðu grunngerðar sveitarfélaga og fjárfestingarþarfa þeirra.

 

Sveitarstjórn Skagastrandar vill jafnframt minna á að nauðsynlegt sé að koma á skilvirkum fjármálareglum og að aukið verði við valdsvið og hlutverk Eftirlitsnefndar sveitarfélaga þannig að m.a. verði tryggt að hún komi fyrr að málum einstakra sveitarfélaga þar sem rekstur og skuldsetning stefnir í óefni, eins og segir í bókun sveitarstjórnar.

heimild: Húni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir