Skagafjarðarrall um helgina
Skagafjarðarrallið fer fram föstudag og laugardag og munu væntanlega 23 bílar mæta til leiks og þar á meðal Íslandsmeistararnir í rallakstri, Sigurður Bragi og Ísak, sem hafa ekkert verið með í sumar. Ef þeim tekst að sigra rallið verður það í þriðja sinn í röð sem þeir vinna Skagafjarðarrallið.
Til að áhugasamir átti sig þá er hér leiðarlýsing rallsins: Keppnin er ræst frá Vörumiðlun á Sauðárkróki, ekið suður Eyrarveg – Strandveg og sem leið liggur út úr bænum og veginum fylgt þar til beygt er til vinstri inn á veg nr. 76 í átt til Siglufjarðar. Beygt til vinstri inn á afleggjaran að bænum Bakka í Viðvíkursveit og eknir 3,3 km eftir þeim vegi þar til beygt er til hægri inn á gamlan malarveg. Þar mun sérleiðin hefjast. Eknir verða 5,3 km. Að næstu ferjuleið. Þá er beygt til hægri inn á afleggjara sem merktur er Kolkuós/Ásgarður og ekið eftir honum þar til beygt er til vinstri inn á þjóðveg nr. 76, en eftir honum verða eknir 12,5 km þar til beygt er til hægri inn á veg um Deildardal gegnum hlið á móts við bæin Grafargerði. Skömmu eftir beygjuna hefst næsta sérleið og er hún 7,4 km löng. Eftir það eru aðrir 7,4 km eknir að þjóðvegi nr. 76 þar sem beygt er til vinstri og eknir um 600 m og beygt aftur inn á veginn um Deildardal. Þessi hringur verður ekinn tvisvar en að seinni umferðinni lokið verður ekið að þeim stað þar sem fyrstu sérleiðinni lauk og hún ekin í öfuga átt miðað við fyrr. Með þessu lýkur keppni á föstudagskvöldi og haldið verður aftur til Sauðárkróks fyrir næturhlé. Steinar í upphafi og lok sérleiða hafa verið merktir með appelsínugulum lit.
Á laugardagsmorgni verður keppnin einnig ræst frá Vörumiðlun og ekið til hægri (suðurs) inn á veg nr. 75 til Varmahlíðar áfram til suðurs gegnum Varmahlíð. Beygt til vinstri inn á veg 752 Mælifell ekið áfram til suðurs u.þ.b. 11 km þar sem beygt er til hægri inn á veg 751 Efribyggð. Beygt til vinstri inn á brú(Mælifellshnjúkur, Hveravellir 35) eftir u.þ.b. 1,7 km og þaðan ekið að upphafi sérleiðar u.þ.b 4,7 km frá brúnni. Sérleiðin um Mælifellsdal er 25 km og verður ekin tvisvar fram og til baka 4 sérleiðarhlutar, samtals 100 km.
Eftir er að ganga frá merkingum um upphaf og enda sérleiðar, en það mun verða gert með sama hætti og undanfarin ár.
Að loknum akstri um sérleiðir á Mælifellsdal er ekið til baka til Sauðárkróks og ekin sérleiðin Nafir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.