Skagabyggð kynnir nýja heimasíðu og byggðarmerki

Nú um áramótin tók Skagabyggð í notkun nýja heimasíðu og í leiðinni var kynnt til sögunnar nýtt byggðarmerki sveitarfélagsins. Fram kemur að heimasíðan sé enn í þróun og allar góðar hugmyndir vel þegnar. Nú þegar má finna á síðunni fundargerðir sveitarstjórnar auk almennra upplýsinga um sveitarfélagið, þjónustu, sveitarstjórn og nefndir auk frétta.

Sem fyrr segir var nýtt byggðarmerki kynnt nýverið og í frétt á nýja vefnum segir að Skagabyggð hafi fengið góða jólagjöf. Hönnuður merkisins er Birgir Breiðfjörð, starfsmaður Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og gaf hann Skagabyggð leyfi til að nota það að vild. „Sveitarstjórn tók það fyrir á fundi sínum og samþykkti það sem byggðarmerki sveitarfélagsins. Færum við Birgi bestu þakkir fyrir þetta fallega merki,“ segir í fréttinni en fundur sveitarstjórnar fór fram 29. desember sl.

Um 90 manns búa í Skagabyggð sem er á vestanverðum Skaga í Austur Húnavatnssýslu og liggur frá Laxá í Refasveit norður að Hrafná og aftur frá Sveitarfélaginu Skagaströnd og norður á Skagatá. Þegar kosið var um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra í Austur Húnavatnssýslu sumarið 2021 reyndust bæði Skagabyggð og Skagaströnd vera á móti sameiningu en í kjölfarið sameinuðust Blönduós og Húnavatnshreppur í sveitarfélagið Húnabyggð. Kannaður var grundvöllur fyrir sameiningu Skagastrandar og Húnabyggðar og voru íbuar Skagastrandar mjög jákvæðir fyrir sameiningu en mjótt var á munum í Skagabyggð og fór svo að ekki reyndist samstaða innan sveitarstjórnar Skagabyggðar um sameiningarviðræður og varð því ekkert af þeim.

Ný heimasíða Skagabyggðar >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir