Sjöundi tapleikur Kormáks/Hvatar í röð kom í Árbænum

Staðan í 3. deildinni að loknum 20 umferðum. SKJÁSKOT AF VEF KSÍ
Staðan í 3. deildinni að loknum 20 umferðum. SKJÁSKOT AF VEF KSÍ

Lið Húnvetninga spilaði tuttugasta leik sinn í 3. deildinni sl. miðvikudagskvöld en lið Kormáks/Hvatar hefur átt erfitt uppdráttar upp á síðkastið. Þeir mættu til leiks með nokkuð laskaðan hóp í Árbæinn þar sem lið Elliða beiða eftir þeim en Árbæingarnir voru aðeins með stigi meira en gestirnir og mátti því búast við jöfnum leik. Svo fór ekki því heimamenn náðu fljótt yfirhöndinni og unnu að lokum 4-1 sigur.

Eins og stundum í 3. deildinni þá getur allt gerst í hausleikjunum þegar farið er að þynnast í hópum liðanna, meiðslalistinn lengist, leikbönn skella á leikmönnum og einhverjir leikmenn kannski komnir í skóla. Óvænt úrslit líta oft dagsljósið á þessum tíma. Lið Kormáks/Hvatar hafði tapað síðustu sex leikjum og það má því kannski segja að það hafi ekki komið á óvart að sjá sjöundi bættist við í Árbænum.

Kári Sigfússon kom Elliða yfir á 16. mínútu og Nikulás Ingi Björnsson bætti við marki tvö á 39. mínútu. Kári gerði síðan út um leikinn eftir þriggja mínútna leik í síðari hálfleik. Goran Potkozarac fékk að líta sitt annað gula spjald á 79. mínútu og hvarf af velli. Pétur Óskarsson gerði fjórða mark Elliða á 90. mínútu en það var síðan þjálfari Kormáks/Hvatar, sem kom inn á í fyrsta skipti í sumar um miðjan síðari hálfleik, sem lagaði stöðuna fyrir gestina á fjórðu mínútu í uppbótartíma.

Augnablik styrkir aðstandendur harmleiksins á Blönduósi

Við tapið sigu Húnvetningar niður í tíunda sæti 3. deildar á markatölu. Nú á eftir að spila tvær umferðir í deildinni og er næsti leikur í Kópabogi þar sem Augnablik bíður Húnvetninga. Lið Kormáks/Hvatar hefur nú sigið ofan í fallbaráttu 3. deildar, er með 20 stig, en liðið er með töluvert betri markatölu en Vængir Júpíters (17 stig) og KH (14 stig) og þarf einstaka óheppni til til að liðið lendi í fallsæti.

Húnvetningar mæta Augnablik á gervigrasinu í Fagralundi í Kópavogi á laugardag kl. 16:00. Aðgangseyrir á völlinn er 1.500 krónur og gefa heimamenn allan aðgangseyri sem inn kemur til aðstandenda harmleiksins sem átti sér stað á Blönduósi í ágúst. Er fólk hvatt til að fjölmenna á leikinn og þeim sem ekki eiga heimangengt bent á að hægt er leggja framlag inn á reikning.

Reikningsnúmer: 0536-26-014085
Kennitala: 660195-2899

Til fyrirmyndar hjá liði Augnabliks!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir