Sjálfstæð þjóð í eigin landi

Ásmundur Einar Daðason

Reglulega kemur upp umræða um mögulega aðild Íslands að ESB og aðildarsinnar láta í það skína að slíkt myndi ekki hafa neikvæð áhrif á landbúnað og sjávarútveg. Ýmiss atvinnutengd hagsmunasamtök hafa farið ítarlega yfir þessi mál og bent á að aðild myndi koma mjög illa við íslenskan landbúnað og sjávarútveg. Undirritaður vill að við stöndum áfram utan ESB og er sammála þeim sem telja þetta mikla ógn fyrir íslenskan landbúnað og hinar dreifðu byggðir landsins.

 

Höldum yfirráðum yfir auðlindum okkar

Hvað sjávarútveg varðar þá er mikilvægt að stýring á nýtingu auðlindarinnar verði í auknu mæli í þágu fólksins og hinna dreifðu byggða. Í því samhengi er grundvallaratriði að halda auðlindum okkar í sjó og ekki má skerða umráða- eða nýtingarrétt þjóðarinnar á þessum auðlindum hvorki til skemmri eða lengri tíma. Gangi Ísland í ESB þýddi það 14% stækkun efnahagslögsögunnar á hvern íbúa á ESB svæðinu en á móti kæmi 99,3% minnkun á hvern Íslending.

 

Erfiðleikar nýrra ESB ríkja munu koma niður á okkur

ESB hefur stækkað mikið á undanförnum árum og mörg þessara nýju aðildarríkja glíma við mikla erfiðleika. Sú krafa er komin upp að ESB styðji þau og jafni þannig lífsgæði innan sambandsins. Stóra spurningin er hvort vilji sé til þess að koma að lausn vandans með þessum hætti, sem myndi augljóslega draga úr lífsgæðum Íslendinga ef við værum innnan ESB.

 

Krafa bænda í nýju aðildarríkjum ESB til jöfnuðar þegar kemur að stuðningi við landbúnað er einn liður í þeim innri átökum sem eiga sér stað innan sambandsins. Bændur nýju aðildarríkjanna njóta mun lægri stuðnings heldur en bændur í gömlu aðildarríkjunum. Ef gengist verður við þessum kröfum þarf annað hvort að skera niður stuðning í gömlu og betur stæðu ESB ríkjunum eða stórauka fjárstuðning til landbúnaðar sem ólíklegt er að yrði. Þessi jöfnuður yrði ávallt á kostnað bænda á öðrum svæðum og myndi hafa gríðarlega neikvæð áhrif hér á landi.

 

Sérstaða íslensks landbúnaðar og fæðuöryggi

Íslenskur landbúnaður er ekki eins fjölbreyttur og í öðrum löndum auk þess sem framleiðsluaðstæður hérna gera það að verkum að styrkir eru nauðsynlegir. Landbúnaður veitir fjölda fólks atvinnu víðsvegar um landið og er auk þess lykilatriði til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Mjög góð rök hafa verið færð fyrir því að Evrópusambandsaðild myndi veikja innlenda landbúnaðarframleiðslu, þar með veikja fæðuöryggi þjóðarinnar og draga úr styrk hinna dreifðu byggða landsins.

 

Til framtíðar þarf að leita allra leiða til að efla fæðuöryggi og þar gegnir landbúnaður lykilhlutverki. Vinna þarf áætlun um það hvernig þjóðin getur tryggt fæðuöryggi til jafn langs tíma og best gerist hjá öðrum þjóðum. Gera þarf kröfu til þess að fá undanþágur fyrir ákvæðum sem stefna fæðuöryggi þjóðarinnar í hættu en þar má nefna innflutning á hráu kjöti og lækkun tolla. Í framhaldinu þarf að efla innlenda framleiðslu en þar má nefna frekari þróun kjötframleiðslu, kornframleiðslu, garðyrkju o.fl. Sé vilji til að vinna eftir þessum markmiðum, standa vörð um landbúnað, efla hinar dreifðu byggðir landsins og tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar þá er mikilvægt að við stöndum áfram utan ESB.

 

VG stendur vörð um íslenskan landbúnað og sjálfstæði þjóðarinnar

Þeir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar sem vilja byggja upp öflugan landbúnað á Íslandi munu á næstu árum þurfa að sýna kraft sinn í verki og vera tilbúnir að tala máli landbúnaðarins. Stærsta málið er möguleg ESB aðild sem yrði gríðarlegt áfall fyrir íslenskan landbúnað, sjávarútveg og hinar dreifðu byggðir. Það er engin lausn á vanda þjóðarinnar að ganga í ESB og við eigum á næstu árum að einbeita okkur að þeim vandamálum sem við þurfum að takast á við hér heima.

 

Gömlu stjórnarflokkarnir sjálfstæðisflokkur og framsókn eru ístöðulitlir þegar evrópusambandsaðild er annarsvegar. Skemmst er að minnast þess að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að halda aukalandsfund fyrr í vetur til að greiða fyrir aðildarumsókn að Evrópusambandinu og láta þannig undan samfylkingunni, en þá ríkisstjórn þraut örendið áður en til þess kæmi. Þá lýsti landsfundur framsóknarflokksins nýverið vilja til að hefja aðildarviðræður við evrópusambandið. Stefna VG er skýr, við teljum Íslendingum betur borgið utan ESB.

 

Ásmundur Einar Daðason, skipar 3. sæti á lista Vinstri grænna í NV-kjördæmi

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir