Sigurmark á síðustu stundu
Tindastóll vann mikilvægan sigur á Hetti á Sauðárkróksvelli í kvöld í spennandi leik en Stólarnir hreinlega urðu að sigra til að koma sér betur fyrir í botnslagnum. Árni Einar gerði sigurmark Stólanna í uppbótartíma í 2-1 sigri og skömmu síðar flautaði dómari leiksins til leiksloka en það var nánast í eina skiptið sem hann flautaði að einhverju gagni fyrir heimamenn.
Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn en strax frá byrjun bar á tuði og væli hjá leikmönnum, enda var dómarinn ekki í takti við leikinn og dæmdi lítið. Það var fátt um færi og fyrsta mark leiksins kom uppúr miðjum fyrri hálfleik. Árni Einar tók þá aukaspyrnu frá vinstri kanti og setti boltann á kollinn á Stefáni Arnari sem sneiddi boltann upp í hægra bláhornið. Davíð Rúnars sýndi ágæta takta í sókn Stólanna og var ógnandi, nautsterkur og gráðugur. 1-0 í hálfleik.
Gestirnir komu ákafari til leiks í síðari hálfleik og pressuðu Tindastólsmenn nokkuð. Þeir áttu margar hættulegar sendingar fyrir mark Stólanna en lukkan lék við heimamenn þangað til að um 20 mínútur voru eftir af leiknum. Þá opnuðu Hettirnir vörn Tindastóls og skoruðu laglega stöngin inn. Loks sýndu Stólarnir sóknartilburði og reyndu að halda boltanum betur innan liðsins. Bæði lið fengu tækifæri til að komast yfir; Davíð átti hörkuskot rétt framhjá og á 90. mínútu skaut Guðni naumlega yfir úr ágætu færi eftir hornspyrnu. Sigurmarkið kom þegar þrjár mínútur voru liðnar fram yfir venjulegan leiktíma; Alli tók langt innkast inn á vítateig Hattar og eftir smá darraðadans í teignum barst boltinn til Árna Einars í upplögðu skotfæri og hann flengdi boltann í markið við mikinn fögnið leikmanna og stuðningsmanna Tindastóls. Gestirnir fengu í kjölfarið gott færi til að jafna en brást sem betur fer bogalistinn. Lokatölur 2-1.
Með sigrinum skaust Tindastóll úr ellefta sæti í það tíunda en heil umferð var leikin í kvöld í 2. deildinni. Magni tapaði heima gegn Hvöt og færðist við það niður í fallsæti en Víðir gerði jafntefli og er stigi ofar en Stólarnir. Botnlið Hamars sigraði hins vegar topplið Reynis úr Sandgerði og botnbaráttan er því að verða æsispennandi og ljóst að í þessari deild geta allir unnið alla.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.