Sigurður ætlar að prófa margar nýjar greinar á Landsmótinu
„Ég er búinn að skrá mig í götuhjólreiðar, bogfimi og götuhlaup á Landsmótinu. En svo ætla ég í sjósund því ég hef ekki prófað það áður. Mig langar líka til að prófa biathlon,“ segir Skagfirðingurinn Sigurður Ingi Ragnarsson. Sigurður er sérstaklega spenntur fyrir hjólreiðunum enda í hjólreiðaklúbbi sem stofnaður var á Sauðárkróki fyrir rúmum mánuði ásamt 25-30 öðrum.
Klúbburinn er ætlaður fólki sem bæði stundar götuhjólreiðar og fjallahjólreiðar. Klúbbfélagar hjóla saman einu sinni í viku og er mætingin þokkaleg í hverja ferð. Þeir sem stunda götuhjólreiðar eru duglegri að mæta en hinir, að sögn Sigurðar Inga. Hann stundar hreyfingu af krafti, fer út alla daga vikunnar og reiknast til að hann hjóli, hlaupi og syndi um 8-9 tíma á viku.
Landsmótið leggst vel í Sigurð
„Ég held að þetta verði mjög skemmtilegt. Ég hef prófað allar greinarnar áður nema biathlon. Mér finnst það spennandi grein, kannski af því að ég hef alltaf verið heillaður af skíðaskotfimi og langar að prófa hana,“ segir Skagfirðingurinn Sigurður Ingi og hvetur aðra til að skrá sig á Landsmótið. Þar sé margt í boði fyrir þá sem hafi gaman af því að hreyfa sig og prófa nýjar greinar.
Landsmótið á Sauðárkróki er haldið dagana 12. – 15. júlí. Þetta verður íþróttaveisla fyrir 18 ára og eldri og geta þátttakendur sjálfir sett saman sína eigin dagskrá.
Miklu ítarlegri upplýsingar á LANDSMOTID.IS
/umfi.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.