Sigur, tap og jafntefli um helgina

Það var mikið um að vera á fótboltasviðinu um helgina hjá meistaraflokksliðunum á Norðurlandi vestra. Tindastóll krækti í dýrmæt stig með stórsigri á Hetti og kom sér þar með í 7. sæti 2. deildar með 21 stig, jafnmörg og Höttur sem er sæti neðar með lakara markahlutfall. Stólastelpur þurftu að lúta í lægra haldi fyrir Víkingi Ólafsvík og eru í bullandi fallhættu, Kormákur/Hvöt tapaði líka gegn Árborg en Drangey lék tvo leiki og náði fjórum stigum úr þeim.

Tindastóll rassskellti Hattarmenn sl. laugardag á Sauðárkróksvelli í 2. deildinni. Áður en yfir lauk höfðu heimamenn skorað sex mörk á móti einu gestanna. Hinn ungi knattspyrnumaður Jón Gísli Eyland Gíslason, sem einungis er 15 ára, kom Stólunum yfir strax á 6. mínútu en Gregory Thomas Conrad bætti við tveimur mörkum áður en flautað var til hálfleiks.

Jack Clancy setti fjórða markið fljótlega í þeim seinni og Ragnar Þór Gunnarsson rak endahnútinn í stórsigri Stólanna með tveimur mörkum á innan við 10 mínútna kafla um miðjan seinni hálfleik. Steinar Aron Magnússon náði að klóra örlítið í bakkann fyrir Hött með marki rétt fyrir leikslok. Úrslit Tindastóll 6 – Höttur 1.

Stelpurnar í Tindastóli héldu til Ólafsvíkur á sunnudag og urðu þær að sætta sig við stigalausa ferð. Fehima Líf Purisevic kom Víkingum yfir á 24. mín. en Kolbrún Ósk Hjaltadóttir jafnaði í upphafi seinni hálfleiks. Þrátt fyrir ágætar sóknir Stólastúlkna tókst þeim ekki að komast yfir en það gerðu heimastúlkur hins vegar þegar Mary Essiful kom boltanum í markið á 49. mínútu. Stólastelpur eru í bullandi fallhættu, sitja í neðsta sæti með 8 stig, þremur á eftir Víkingi og 8 stigum á eftir Hömrunum. 

Drangey lék tvo leiki um helgina. Á laugardeginum tóku þeir á móti KB á  Sauðárkróksvelli og höfðu betur 3-2. Eysteinn Bessi Sigmarsson skoraði tvö mörk, það fyrra á 35. og hið síðara á 60. mínútu. Á 76. mínútu kom Sigurvin Örn Magnússon inn á fyrir Jóhann Daða Gíslason og þakkaði pent fyrir sig með marki tveimur mínútum síðar og tryggði Drangey sigurinn og stigin þrjú sem í boði voru.

Á sunnudaginn kom svo Stál-úlfur í heimsókn á Krókinn og skildu liðin jöfn 2-2 en heimamenn voru 0-2 undir í hálfleik. Guðni Þór Einarsson skoraði fyrra mark Drangeyinga í upphafi seinni hálfleiks og Jón Grétar Guðmundsson það seinna á 68. mínútu.

Drangey situr nú í 5. sæti með 14 stig, 10 stigum færri en Stál-úlfur en fjórum stigum ofar en KB og Geisli en Álafoss vermir neðsta sætið með 3 stig.

 

Kormákur/Hvöt fékk Árborg í heimsókn á Blönduós á laugardag. Leikurinn var vart hafinn þegar Arnar Freyr Óskarsson kom gestunum yfir en heimamenn svöruðu með marki úr vítaspyrnu á 20. mínútu og staðan 1-1 í hálfleik. Pétur Arnar Kárason kom svo heimamönnum yfir á 55. mínútu sem dugði þó ekki til því Daníel Ingi Birgisson jafnaði leikinn 10 mín. síðar og bætti svo öðru við er innan við 10 mín. voru eftir af leik. Það var svo Magnús Helgi Sigurðsson sem gulltryggði gestunum 4-2 sigur og þar með stigin þrjú þegar hann skoraði í uppbótartíma.

Kormákur/Hvöt situr í þægilegu 5. sæti, langt í burtu frá botninum með 22 stig, aðeins fjórum stigum frá Létti, fimm stigum frá Árborg og sjö stigum frá Skallagrími sem situr í öðru sæti með 29 stig. Á toppnum trónir Ýmir með 32 stig.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir