Sigur á Flugfélagsmótinu á Ísafirði
Tindastóll sigraði á Flugfélagsmótinu á Ísafirði um helgina. Liðið lagði að velli 1. deildarlið Þórs Akureyri, Vals og KFÍ.
Það voru 12 leikmenn sem fóru vestur ásamt þjálfara sínum Karli Jónssyni sem einnig gegndi störfum rútubílstjóra. Leikmennirnir 12 voru: Axel Kárason, Benedikt Árnason, Einar Bjarni Einarsson, Helgi Rafn Viggósson, Halldór Halldórsson, Michael Giovacchini, Hreinn Birgisson, Þorbergur Ólafsson, Pálmi Geir Jónsson, Sigurður Gunnarsson, Sigmar Logi Björnsson og Sveinbjörn Skúlason.
Þeir Svavar Atli Birgisson, Helgi Freyr Margeirsson og Friðrik Hreinsson áttu ekki heimangengt að þessu sinni en sá síðastnefndi eignaðist stúlkubarn aðfaranótt laugardagsins og tileinkuðu leikmenn hinni nýfæddu dóttur Rikka og Guðrúnar, sigurinn í mótinu. Ricky Henderson er ekki kominn á svæðið ennþá en hann er væntanlegur innan næstu 10 daga.
Michael Giovacchini lék ekki með liðinu í fyrstu tveimur leikjunum en kom við sögu í þeim síðasta og sýndi þar mjög lofandi frammistöðu. Það lyftist brúnin á leikmönnum þegar hann lyfti sér upp og tróð boltanum af krafti í upphitun en hann er aðeins um 181 cm á hæð.
Fyrsti leikurinn var gegn Þórsurum. Ekki var komið á leikstað fyrr en um hálftíma fyrir leik og fóru menn því beint úr rútunni og inn á gólfið. Það virtist þó ekki hafa neikvæð áhrif á liðið því menn hófu leikinn af miklu krafti. Vörnin var sterk og gaf hún mörg hraðaupphlaup í upphafi sem menn nýttu vel. Var grunnurinn að öruggum sigri lagður strax í fyrsta leikhluta. Í hálfleik var staðan 43-26 fyrir Tindastól og úrslit leiksins urðu 83-61. Stig Tindastóls: Helgi Rafn 24, Einar Bjarni 16, Axel 9, Halldór 9, Hreinn 8, Þorbergur 4, Benedikt 4, Sigmar 4, Sigurður 3 og Sveinbjörn 2.
Næsti leikur var á laugardagsmorguninn kl. 10 og var hann gegn Valsmönnum sem töpuðu kvöldinu áður fyrir heimamönnum í KFÍ. Valsmenn voru hærri í loftinu en Þórsarar og þurftu menn að taka vel á í fráköstunum. Svipað var uppi á teningnum í upphafi og á móti Þór, liðið byrjaði af miklum krafti með sterkri vörn og öflugum hraðaupphlaupum. Staðan í hálfleik var 39-26 fyrir Tindastól og lokastaðan 80-63. Stigin í leiknum settu Axel 19, Einar Bjarni 12, Þorbergur 11, Helgi Rafn 10, Hreinn 9, Halldór 8, Sigurður 7, Sigmar 2 og Sveinbjörn 2.
Strax á eftir leiknum við Val var leikið gegn heimamönnum í KFÍ. Nokkuð fyrirséð var að þetta yrði úrslitaleikur mótsins þar sem búist var við að KFÍ myndi leggja Þórsara að velli. Talsverð þreyta var kominn í leikmannahóp Tindastóls og sást það greinilega á upphafsmínútunum. KFÍ byrjaði mun betur og leiddi í hálfleik með 9 stigum 43-34. Menn fundu aukabensín á tankinn í hálfleik og það var allt annar bragur á leik Tindastóls í þriðja leikhluta sem vannst 20-9 og forystan 54-52 þegar flautað var til fjórða leikhluta. Í honum var Tindastóll skrefinu á undan, þeir Michael og Sveinbjörn léku sérstaklega vel í leikhlutanum og lögðu grunninn að sigri 77-72. Michael sýndi í leiknum við hverju er að búast af honum og voru bæði þjálfari og leikmenn ánægðir með hans framlag og lofar hann góðu fyrir framhaldið. Stig Tindastóls í þessum leik skoruðu Helgi Rafn 16, Sveinbjörn 15, Michael 13, Axel 13, Halldór 8, Einar Bjarni 5, Sigmar 3 (þó hann hafi ekki leikið vegna meiðsla – en vel gert engu að síður!), Hreinn 2 og Þorbergur 2.
Þar með var ljóst að Tindastóll hafði unnið mótið og fékk í verðlaun 12 flugmiða með Flugfélagi Íslands. Þeir KFÍ-menn eiga hrós skilið fyrir skemmtilegt mót og var mikil ánægja hér á heimaslóðum með beinar netútsendingar þeirra.
Tvennt stóð upp úr eftir mótið að mati þjálfara, annars vegar sú staðreynd að liðið er að komast í gott líkamlegt form og hitt, að ungu strákarnir stigu vel upp í fjarveru sterkra lykilmanna liðsins og sýndu að framtíðin er björt í boltanum hér á Krók. Axel Kárason var aldursforseti liðsins og í sameiningu bundu hann og Helgi Rafn vörnina vel saman með gríðarlegri baráttu. Sú barátta skilaði sér til yngri leikmanna sem lögðu sig fram og var sérstaklega gaman að fylgjast með varnarleik liðsins, en leikmenn eru nú óðum að tileinka sér leikaðferðir þar.
Fjölmargar skemmtilegar myndir og umfjöllun um mótið má sjá á heimasíðu KFÍ.
Um næstu helgi tekur Tindastóll þátt í Greifamótinu á Akureyri og verður leikjaprógramið sett á heimasíðuna um leið og það veðrur klárt.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.