Siglarar funduðu í gærkvöldi
Í gærkvöldi var haldinn aðalfundur Siglingaklúbbsins Drangey á Sauðárkróki þar sem framtíðarsýn siglinga í Skagafirði og hugmyndir um skipulag umhverfis Suðurgarðs voru rædd.
Auk almennra aðalfundarstarfa voru tillögur að húsnæði og aðstöðu Siglingaklúbbsins Drangey á dagskrá sem og verkáætlun vegna framkvæmda. Klúbburinn er starfræktur í bráðabirgðaaðstöðu við Suðurgarðinn á Sauðárkróki en fram kom að verið er að reyna að koma aðstöðu klúbbsins á skipulagstillögu svetarfélagsins. Þá voru væntanleg bátakaup skoðuð en klúbburinn er í stöðugri sókn með námskeiðum og væntanleg verður tekið upp samstarf við grunnskólana í firðinum. Þá kom fram að fjárhaldsmálin væru í jafnvægi en jafnframt ákveðið að taka upp félagsgjöld sem ekki var krafist áður. Sama stjórn bauð sig fram til áframhaldandi starfa og var hún kosin með dynjandi lófaklappi. Stjórnin er þannig skipuð:
- Jakob F. Þorsteinsson formaður,
- Hallbjörn Björnsson gjaldkeri
- Hjördís E. Guðjónsdóttir ritari
- Ingvar Páll Ingvarsson
- Steinunn Rósa Guðmundsdóttir
Síðast liðið sumar tóku nokkrir meðlimir klúbbsins sig til og keyptu skútu sem ber nafnið Ögn en hún er smíðuð hjá Trefjum í Hafnarfirði. Ögnin er af gerðinni Micro 18 og er 18 feta, smíðuð 1981 og er fyrsta skútan sinnar tegundar, eintak númer 01. Það var á stofnfundi félagsins sem sú hugmynd kviknaði að nokkrir félagar tækju sig saman og keyptu litla skútu. Síðsumars fannst svo heppileg skúta og varð áhuginn það mikill að alls urðu eigendurnir 18 að tölu. Mikill áhugi er hjá félögum innan klúbbsins að kaupa aðra skútu og má ætla að slík kaup muni hleypa auknum krafti og áhuga í starfið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.