„Sárnar að heyra svona en ég ætla ekki að láta þetta hafa nein áhrif á mig.“
„Þetta var virkilega góður karaktersigur,“ segir Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfubolta og liðsmaður KR, ánægður með úrslit sinna manna í gærkvöldi en KR snéri slæmri stöðu sér í vil og sigraði Tindastól eftir framlengdan leik. Aðspurður um rasistaupphrópun sem heyrðust frá stuðningsmanni Tindastóls í hans garð segir hann þau fyrst og fremst leiðinleg. „Maður heyrir mjög margt frá andstæðingum en það er yfirleitt bara eitthvað saklaust. En þegar maður heyrir eitthvað svona persónulegt er það alltaf yfir strikið.“
Eins og hægt er að sjá í lýsingu Feykis.is á leiknum voru úrlitin helsúr fyrir heimamenn sem voru komnir 63-42 yfir og fimmtán mínútur eftir af venjulegum leiktíma. Þá hrökk vörn KR rækilega í gírinn og Stólarnir misstu fótanna á báðum endum vallarins.
„Það var auðvelt að gefast upp á móti sterku liði á erfiðasta útivelli landsins. En við töluðum um það í hálflek að það væri ennþá 20 mínútur eftir af leiknum og ekki ómögulegt að koma aftur inn í leikinn og ná að stela þessu. Við vorum samt lengi að byrja í þriðja en náum að saxa á þetta hægt og rólega, sérstaklega í fjórða. Þetta er svo fljótt að breytast og þegar við vorum komnir niður í 10 stig vissum við að þetta væri aftur leikur og við komnir í góðan séns.,“ segir Kristófer og bætir við að varnarleikurinn og frábært framlag Jón Arnórs og Julian Boyd í fjórða leikhluta hafi gert útslagið.
„Jón var kominn í þann gír að erfitt er að eiga við hann og hann kann að vinna leiki líka, búinn að gera þetta í mörg ár. Hann fór má segja fyrir hópnum og við eltum hann.“
Það var ekkert að trufla þótt Brynjar sé kominn í Stólana?
„Þetta er fyrsti leikurinn minn á móti honum í vetur og auðvitað mjög skrítið en við höfum mjög gott samband innan vallar sem utan. Auðvitað sér maður eftir honum fara norður en það er líka mjög gaman að fá að kljást við hann líka þó að hann sé í aðeins öðruvísi treyju.“
Þó að KR hafi unnið sætan sigur á erfiðum útivelli segir Kristófer engan tíma gefast til að halda upp á sigurinn.
„Ekki svo gott. Við drifum okkur í bæinn og löng og leiðinleg rútuferð framundan. En það breytir aðeins andrúmsloftinu að fara upp í rútu með sigur frekar en stórt tap þannig að það létti manni stundina. En við eigum leik núna strax á mánudaginn og maður má ekki fara of hátt.“
En að rasista upphrópuninni. Hvernig var upplifunin að heyra þetta?
„Þetta var fyrst og fremst leiðinlegt að heyra eitthvað svona og hvað þá árið 2019. Ég hef verið það heppinn að hafa aldrei lent í neinu svona leiðinlegu. Ég fæ stundum spurningar hvort ég hafi upplifað svona nokkuð en svarið hefur alltaf verið „Nei“. Þannig að þetta er bara leiðinlegt. Þetta á hvergi heima og manni sárnar að heyra svona en ég ætla ekki að láta þetta hafa nein áhrif á mig,“ segir Kristófer yfirvegaður og ætlar sér ekki niður á þetta plan og fara að tala illa um viðkomandi. „Ég þekki manninn ekki neitt. Þetta eru bara orð sem ég heyrði og ég veit ekkert hver sagði þetta. Maður heyrir mjög margt frá andstæðingum en það er yfirleitt bara eitthvað saklaust. En þegar maður heyrir eitthvað svona persónulegt er það alltaf yfir strikið,“ segir hann og vill koma því á framfæri að formaður KKD Tindastóls hafi komið til sín beint eftir leik og beðið hann afsökunar á umræddu atviki. „Ég fékk líka mörg skilaboð frá leikmönnum Tindastóls, þjálfa og stuðningsmönnum liðsins. Ég hef ekkert út á þá að setja og er alls ekki að alhæfa neitt um allt samfélagið. Það er bara þessi einstaklingur. Ég sé að sumir eru að tala um að það eigi að taka á öllum stuðningsmönnum en það er ekki málið. Þeir geta ekki ráðið hvað aðrir segja,“ segir Kristófer og ítrekar að svona lagað eigi ekki að líðast.
Undir það tekur Ingólfur Jón Geirsson, formaður körfuboltadeildar Tindastóls, sem segir ekki enn vitað hver sá seki er. Hann hvetur þann sama til að gefa sig fram og ræða málin, annað hvort við hann sjálfan eða annan í stjórninni eða það sem best væri, að hafa samband við Kristófer sjálfan og biðja hann afsökunar.
Sjá afsökunarbeiðni KKD Tindastóls HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.