Óbreyttum samningi við Reykjatanga vegna Skólabúðanna að Reykjum ekki framhaldið
Samningur um rekstur skólabúðanna að Reykjum í Hrútafirði er runninn út og verður ekki framlengdur í óbreyttri mynd, eftir því sem fram kemur í fundargerð sveitarstjórnar Húnaþings vestra en hann hefur verið tvíframlengdur við núverandi rekstraraðila. Reykjatangi ehf. hefur starfrækt búðirnar frá árinu 2003 en eigendur eru hjónin Karl B. Örvarsson og Halldóra Árnadóttir. Hafa þau lýst áhuga á að halda rekstrinum áfram en í fyrrnefndri fundargerð kemur jafnframt fram að aðrir áhugasamir aðilar hafi einnig gefið sig fram.
Nú verður leitað hugmynda og tilboða í framtíðarrekstur búðanna og hefur sveitarstjóra og byggðarráði verið falið að gera tillögu til sveitarstjórnar um hvernig auglýst skuli eftir samstarfsaðilum um rekstur þeirra, samningsdrög, hvaða kröfur skuli gerðar, hvaða skilyrði umsækjandi þurfi að uppfylla og hvernig valið verði milli umsækjenda.
Skólabúðirnar í Reykjaskóla tóku til starfa haustið 1988 og hafa starfað óslitið síðan. Nemendum grunnskóla víðsvegar að af landinu gefst kostur á að dvelja í skólabúðunum, vikutíma í senn við nám, leik og störf. Á heimasíðunni skolabudir.is segir að árlega komi u.þ.b. 3000 börn í skólabúðirnar og miðast starfstíminn að mestu við skólaár grunnskóla landsins. Í dag starfa átta manns í fullu starfi við búðirnar auk fólks í hlutastörfum en utan hefðbundins starfstíma þeirra er rekin ferða- og veisluþjónusta í Reykjaskóla.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.